135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[18:28]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir tók mig á þeim hælkrók að ég hefði ekki lesið, að minnsta kosti ekki nægilega vel ef þá nokkuð, greinargerðina sem liggur að baki þeirri þingsályktunartillögu sem hér er rædd, og ég kem hér til að tilkynna að ég hef nú gert það. Þar kemur vissulega fram að áhættumat sé nauðsynlegur hluti umhverfismats samkvæmt 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og er reyndar búið að breyta því síðan. Þetta er að vísu ekki alveg nákvæmt því í þessari ágætu 9. gr. er ekkert minnst á áhættumat heldur taldir upp ýmsir aðrir hlutir og má með góðum vilja skilja að þar kunni að vera um áhættumat að ræða þannig að greinargerðin gefur ekki endanlegan úrskurð í sannleiksleit okkar hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur.

Málinu er þannig háttað eins og flutningsmenn hefðu sjálfsagt getað upplýst að úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum í Neðri-Þjórsá var kveðinn upp árið 2003. Hann var svo kærður og þáverandi umhverfisráðherra kvað upp úrskurð um þá kæru 29. apríl árið 2004 og heimilaði sem sé framkvæmdirnar með nokkrum skilyrðum. Eitt af þeim skilyrðum var að gert yrði áhættumat sem um færi eins og þar er um fjallað.

Gallinn og efnisatriði hér eru hins vegar þau að í þessum úrskurði er ekkert um það fjallað hvert það áhættumat eigi að fara, hver eigi að fjalla um það áhættumat eða til hvers það sé. Samkvæmt þeim fátæklegu upplýsingum sem ég hef aflað mér um verklag af þessu tagi er óljóst hver fjallar um það áhættumat. Það er að minnsta kosti ekki lögskylt að það áhættumat fari aftur til Skipulagsstofnunar og í úrskurði umhverfisráðherra sem ég er hér að tala um, frá 29. apríl 2004, er það ekki áskilið. Þar stendur einungis að Landsvirkjun skuli láta gera þetta áhættumat. Ég sé því ekki betur en að niðurstaðan í orðahnippingum okkar Ragnheiðar Elínar Árnadóttur þar sem gengið hefur á ýmsu sé sú að flutningsmenn hafi hér að því leyti rétt fyrir sér að áhættumat Landsvirkjunar mæti engu prófi, það sé enginn eftirlitsdómari, svo gripið sé til knattspyrnulíkingar, sem úrskurðar um hvort það sé vel gert eða illa og þeir einu sem það gera séu þá annars vegar almenningur og fulltrúar hans í sveitarstjórnum og fjölmiðlum og hvar sem þeir nú eru og hins vegar fagmennirnir. (Gripið fram í.)

Þetta er eins og ég skýrði út áðan ekki í samræmi við þær reglur sem menn hafa komist að raun um að séu skástar við mat á umhverfisáhrifum þar sem vissulega er áskilið að framkvæmdaraðilinn sjái um umhverfismatið meðal annars vegna þess að það væri erfitt fyrir einhvern annan aðila að kosta, það væri óeðlilegt ef einhver annar aðili kostaði það mat. Um er að ræða framkvæmd sem ekki er komin lengra en á teikniborðið, getur verið í sjálfu sér ævintýraleg og það væri út í hött að skylda ríkið, þ.e. borgarana til að kosta umhverfismat á einhverri áætlun sem í upphafi væri fjarri öllum veruleika þannig að þetta var gert svona. En þess var hins vegar gætt mjög klárlega að á hinum endanum væri prófdómari, væri sem sé eftirlitsaðili sem heitir Skipulagsstofnun. Skipulagsstofnun hefur staðið sig með prýði í þessu þrátt fyrir að stjórnmálamenn hafi ekki gert það í þeirri skipan sem hér var áður um mat á umhverfisáhrifum. Svona liggur þetta og sú ósk flutningsmanna að fá óháð áhættumat stenst þess vegna efnislega þegar við hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir erum búin að greiða úr þeirri þoku sem umvafði okkur um hríð en gerir sem sé ekki lengur. (Gripið fram í: Það er engin þoka hér, segi ég nú bara.) Þokan í kringum hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur var sú að hún var að reyna að ýta þessu frumvarpi út af borðinu með tiltölulega hefðbundnum umvöndunum í garð Vinstri grænna sem oft eiga rétt á sér en ég tel að ekki geri það í þessu tilviki og með þeim tiltölulega „billega“ hætti — ég nota um það danskt tökuorð — að þegar menn efast um einhverjar framkvæmdir og eitthvert verk þá séu þær efasemdir jafngildar því að menn séu að henda skít í fagmenn, veitast að fjölskyldum góðra manna eða níða niður æru þeirra. Ég held að það séu, forseti, ekki umræðuhættir sem við eigum að leyfa okkur nema bara mikið liggi við, að mikilvæg náttúruverðmæti eða þjóðleg verðmæti séu undir og allt sé leyfilegt í ást og styrjöldum, en ekki í daglegri umræðu um hlutina eins og þeirri sem hér fór fram áðan.

Ég hef tekið lengri tíma til að koma fram þessum nokkru staðreyndum sem ég taldi mér skylt að koma á framfæri vegna orða minna áðan. Ég vil bæta því við þó ég vilji ekki lengja þessa umræðu að hvað sem þessu áhættumati líður — ég veit ekki hvernig það fer eða hvernig þau mál standa — þá tel ég að það standi upp á Landsvirkjun — ekki einungis að skila af sér þessu áhættumati — eitt þeirra er búið en hin tvö eru sögð á vefsetri Landsvirkjunar í smíðum og átti að skila þeim í febrúar 2008 þannig að það eru fleiri mál í bið en þau sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi — heldur standi upp á Landsvirkjun að svara þeirri kröfu íbúa á bökkum Þjórsár, náttúruverndarmanna um allt land og þeirri almennu kröfu í samfélaginu sem gerir ráð fyrir því að menn beri meiri ábyrgð en áður tíðkaðist á framkvæmdum sínum, að eyðileggja ekki verðmæti til frambúðar í þessu samfélagi og í heiminum öllum, að það standi upp á Landsvirkjun að svara þeirri kröfu sem meðal annars kom frá núverandi hæstv. ráðherra Björgvini G. Sigurðssyni að skila nýjum tillögum um þær virkjanir sem Landsvirkjun hyggst fara af stað með í neðri hluta Þjórsár. Ég segi ekki eins og beinast lægi við að hætta við þetta dellumakarí sem þeir hafa farið þarna út í heldur finnst mér að Landsvirkjun eigi að skila tillögum í samræmi við þann málflutning sem þetta vaktist upp á, nefnilega, þegar miklar deilur og læti voru annars staðar í samfélaginu, að þarna ættu að koma sakleysislegar svokallaðar rennslisvirkjanir í ánni. Mér varð við, eins og sjálfsagt flestum þeim sem ekki þekktu til málsins að minnsta kosti, að þetta hlyti að vera tiltölulega saklaust vegna þess að rennslisvirkjun var manni kennt að væri virkjun sem ekki hefði í för með sér lón, væri virkjun þar sem hægt væri að leiða fisk til dæmis fram hjá og upp fyrir, væri virkjun sem vissulega nýtti vatnið og þá orku sem beint liggur við að nýta í á sem þegar er virkjuð en ylli ekki þeirri eyðileggingu sem við höfum síðar horft upp á í tillögum Landsvirkjunar og fólk á bökkum Þjórsár og víðar á landinu stendur nú eindregið gegn. Þetta tel ég að Landsvirkjun eigi að gera og furða mig á því að þeir skuli ekki gera það.

Það leiðir mig að öðru máli sem ég get ekki rætt út á þeim fjörutíu og tveimur og nú einni sekúndu sem eftir stendur, sem er um þetta ríki í ríkinu sem Landsvirkjun er, um þá ríkisstjórn sem þar er og þá undirríkisstjórn sem nú er komin upp í undirfyrirtækinu Landsvirkjun Vald eða á enskri tungu Landsvirkjun Power og þá furðulegu staðreynd að stjórnarformaður þessa ríkisfyrirtækis er uppgjafavaraþingmaður úr Framsóknarflokknum þó að hér hafi tekið við framsýn og umhverfisvæn ríkisstjórn sem við styðjum báðir, umhverfissinnarnir og náttúruverndarmennirnir ég og hv. þm. Pétur Blöndal.