135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[18:39]
Hlusta

Flm. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Hér hafa orðið líflegar umræðu. Mörgu er ég ósammála, öðru sammála eins og gengur. Ég ætla ekki að orðlengja þetta mikið en samt koma með örfáar athugasemdir.

Þetta svæði á sér verulega sérstöðu, Þjórsá og náttúruperlan Þjórsá og umhverfið. Þjórsá er ekki manngerð. Hún hefur streymt þarna fram árhundruð og með þessum framkvæmdum eru eyðilagðar náttúruperlur sem við megum ekki gagnvart komandi kynslóðum. Ég nefni bara Urriðafoss, vatnsmesta foss landsins í jökulá. Ég nefni Árnes og ég nefni flúðirnar. Ég nefni virkjunina í anddyri hálendisins, lónið sem þar á að mynda og eyðileggja anddyri hálendisins eins og það svæði er kallað og hver sá sem fer um þetta svæði eins og ég hef gert tekur ástfóstri við það. Þetta er ótrúleg náttúruperla sem við eigum að láta í friði.

Það er líka annað sem ég vildi nefna. Svæðið hefur mikla sérstöðu. Það hafa orðið umtalsverðar breytingar á þeirri framkvæmd sem upphaflega var fyrirhuguð til dagsins í dag. Útfærsla framkvæmdanna hefur tekið breytingum frá því að matið lá fyrir og það hafa síðan komið upp haldbærar upplýsingar vísindamanna sem gefa manni ástæðu til þess að efast um að náttúran njóti vafans eins og hún á að gera í tilvikum sem þessum. Og þegar jafnvirtur fræðimaður og Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur setur fram efasemdir þá hlustar maður, þá hlustar maður eftir því þegar hann segir að þarna sé um óvenjulegt svæði á flekaskilum sem er einstætt á heimsvísu. Það myndar sjálfstætt flekasvæði á milli meginjarðskorpuflekanna og þarna eiga Suðurlandsskjálftar upptök sín. Þetta svæði er ótrúlega mikið sprungið og bara sú staðreynd að þegar flæðir í Þjórsá þá fyllast brunnar og jarðvatn hækkar niður öll Skeið og í Flóahreppi vegna þess að hún er á svo lausum grunni, hún er á svo gljúpum grunni áin. Þegar flæðir hins vegar í Hvítá þá gerist þetta ekki. Dæmin um það þegar Þjórsá hljóp neðan jarðar eftir þessum sprungum í kjölfar jarðskjálftanna árið 2000 sem eru nýjar upplýsingar segja manni að það er veruleg hætta á flóðum þarna. Ég nefni það líka að verði lónið, sérstaklega Urriðafosslón lekt þá getur það gert býli óhæf til búskapar og ég nefni það — og það er í samræmi við grundvallarregluna um sjálfbæra þróun um að náttúran njóti vafans — að það er veruleg ástæða til að hafa áhyggjur af laxagengd í ánni vegna þess að það er allsendis óvíst að laxinn gangi upp fyrir Urriðafossstífluna. Það er allsendis óvíst að seiðin gangi niður þannig að það er sama hvernig á þetta er litið, nýjar upplýsingar, þessar forsendur Páls Einarssonar sem var sérfræðingur Landsvirkjunar í mörg ár og viðbrögð Landsvirkjunar við mjög faglegri gagnrýni hans voru sérkennileg svo ég segi ekki meira.

En rétt að endingu, frú forseti. Það er allalgengt í umræðu að menn rugli saman orðunum hæfi og hæfni. Þegar maður talar um hæfi þá er maður að huga að því hvort viðkomandi hafi hagsmunatengsl, hvort viðkomandi geti litið hlutdrægnislaust að málin. En það hvarflar aldrei að manni í sömu andrá að lýsa því yfir að viðkomandi sérfræðingar eða starfsmenn Landsvirkjunar sé hæfnislausir þó þeir séu vanhæfir. Þessu er ævinlega ruglað saman og í hvert skipti sem maður talar um að dómari kunni að vera vanhæfur af því að hann fylgi öðru liðinu eða sé dómari í eigin sök þá kemur þessi gagnrýni: „Þú ert að efast um hæfni þessa einstaklings.“ Menn mega ekki rugla þessu saman, þessum tveimur hugtökum, hæfni og hæfi. Það að geta ekki litið hlutdrægnislaust á mál, það að hafa hagsmunatengsl veldur vanhæfi en það veldur því ekki að sérfræðingarnir hafi ekki hæfni til að sinna sínum verkefnum og þetta vil ég leggja áherslu á og líka það að framganga Landsvirkjunar gagnvart Flóahreppi, gagnvart Skeiða- og Gnúpverjahreppi fyllir mig ákveðnum efasemdum. Það er til skoðunar væntanlega hjá umboðsmanni Alþingis hvort þar hafi verið rétt fram gengið með þessum fjárframlögum til samfélagsverkefna.