135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[13:34]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að biðjast afsökunar á því að hafa ekki látið hæstv. félagsmálaráðherra vita að ég mundi taka málið upp á fundi í gær en ég átti satt að segja von á því að ráðherrar væru viðstaddir umræður um störf þingsins og sæktu þingfundi eins og vera ber. En ég skal biðjast afsökunar á því og vona að ráðherranum líði betur með það.

Eftir sem áður stendur að það virðist eins og félagsmálaráðherra og ráðuneytið hafi hrokkið upp af standinum við þann fréttaflutning sem var af þessu máli í Ríkisútvarpinu fyrir helgi og þegar málið var tekið upp í óundirbúnum fyrirspurnatíma á mánudaginn. Það er að sjálfsögðu jákvætt ef umfjöllunin leiðir til þess að þeir foreldrar sem í hlut eiga fái leiðréttan sinn hlut. Ég hlustaði á fréttaflutning af þessu máli fyrir helgi, um helgina og í gær og m.a. viðtal við föður fjölfatlaðs barns sem sagði sögu sína og það var tilefnið til þess að ég tók málið upp á nýjan leik. Það sem ég sagði í þessu máli var að mér virtist eins og hæstv. félagsmálaráðherra hefði ekki farið með rétt mál, væntanlega óafvitandi, og hún hefði haft rangar upplýsingar undir höndum þannig að það er líka rétt að hæstv. ráðherra lesi þá nákvæmlega það sem ég sagði um þetta mál vegna þess að ég sagði ekki afdráttarlaust að hún hefði sagt þinginu ósatt. Ég orðaði það með þeim hætti að svo virtist sem þær upplýsingar sem ráðherrann hefði komið með væru ekki réttar. (Gripið fram í.) Það er bersýnilegt að það fer eitthvað um samfylkingarmenn í þingsalnum þegar þetta mál er til umfjöllunar og það er líka augljóst að þeim líkar það mjög illa ef andað er á ráðherra Samfylkingarinnar í þessum þingsal. (Gripið fram í.) Ég vil biðja hæstv. forseta um að reyna að hafa stjórn á liði sínu í þingsalnum. (Forseti hringir.) Það kom fram í því svari sem ráðherrann las upp áðan að afgreiðslu málsins var a.m.k. frestað þannig að ljóst er að þeir foreldrar sem eiga hér hlut að máli hafa ekki fengið alla þá þjónustu sem þeir eiga að fá. Ef það er þannig núna að búið sé að leysa málið þá hlýt ég að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra: (Forseti hringir.) Er um að ræða aukafjárveitingu til að leysa vanda þessara fjölskyldna eða er um að ræða tilflutning (Forseti hringir.) innan stofnunarinnar sem hugsanlega kemur þá niður á annarri starfsemi?