135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[13:39]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alrangt hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að félags- og tryggingamálaráðuneytið hafi fyrst farið að skoða þessi mál eftir að þau komu í fjölmiðlum. Við erum búin að vera að skoða rekstrarvanda hjá svæðisskrifstofu Reykjaness um nokkurn tíma og m.a. hvernig tryggja eigi óbreytta þjónustu. Þær viðræður voru í gangi þegar þetta kom í fréttum. Það var á mánudag, sama dag og fréttin kom í Ríkisútvarpinu sem hv. þingmaður er að vísa til að viðræður voru í gangi til að leysa þetta mál. Það er kjarni málsins.

Ég ræddi líka að það væri rekstrarvandi á þessari svæðisskrifstofu og Ríkisútvarpið fór rangt með eftir mér að það væri 50% halli á heimildum svæðisskrifstofu Reykjaness á síðasta ári. Það var 50% halli að því er varðar stuðningsfjölskyldurnar sem er allt annað mál vegna þess að svæðisskrifstofan hefur úr að spila 1.600 millj. og 50% af því væri hvorki meira né minna en 800 millj. En ef við erum að tala um 50% af því sem fer í stuðningsfjölskyldur þá erum við einungis að tala um 13 millj. Þetta mál núna var leyst með tilfærslu innan svæðisskrifstofu Reykjaness. Vandinn er óleystur að því er varðar þann 30 millj. kr. halla sem upp kom á fyrri hluta síðasta árs og það er verkefni sem við munum glíma við. En aðalatriðið er að það verður óbreytt þjónustustig að því er varðar stuðningsfjölskyldur og skammtímavistun og þau úrræði sem hafa verið fyrir hendi á svæðisskrifstofunni. Það er það sem skiptir máli og er kjarni málsins. Fyrir liggur að glíma við þann 30 millj. kr. halla sem skrifstofan á við að etja og það er viðfangsefni sem við munum taka á í framhaldi á þessu.