135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[13:45]
Hlusta

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Frú forseti. Tækni í landbúnaði hefur fleygt fram nú á síðustu árum. Ýmiss konar mjaltakerfi, mötunarkerfi, afrúllarar og fleira hefur litið dagsins ljós á síðustu árum. Bændur eru almennt framfarasinnaðir og reyna með öllum ráðum að hagræða og stækka búin til að framleiðnin verði sem hagkvæmust.

Eitt af því sem stendur þessum búum fyrir þrifum er að ekki nema fáum stendur til boða þriggja fasa rafmagn. Öll þessi nútímatækni er hönnuð fyrir þriggja fasa rafmagn og til þess að hægt sé að nýta sér hana verða menn að fara út í kostnaðarsamar breytingar og fjárfesta í dýrum mótorum. Þá þurfa menn að leigja rafhrúta til að breyta eins fasa rafmagni í þriggja fasa rafmagn til að knýja stærri þriggja fasa mótora en við það nýtast einungis 75% af orkunni.

Það er ekki einungis við rekstur bús sem þriggja fasa rafmagn er orðið nauðsynlegt í dag heldur þarf það við hvers konar rekstur. Menn fara vart út í fyrirtækjarekstur í dag nema í boði sé þriggja fasa rafmagn. Því er hér um mikið hagsmuna- og sanngirnismál að ræða. Samkeppnisstaða þeirra svæða sem ekki hafa þriggja fasa rafmagn er augljóslega lakari en hinna.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann og formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Arnbjörgu Sveinsdóttur, um hvaða afstöðu hún hafi í þessu máli og hvort nefndin hafi það til umfjöllunar þar sem um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir bændur. Ég spyr enn fremur hvort henni finnist koma til greina að stjórnvöld beiti sér fyrir því að lagningu þriggja fasa rafmagns verði hraðað og stuðla þannig að því að styrkja landsbyggðina.