135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

gjaldmiðilsmál.

439. mál
[14:07]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við búum stöðugleika. Við búum ekki við neinn stöðugleika í efnahagsmálum meðan við höfum þá flotkrónu sem við búum við í dag. Hún getur ekki gilt sem lögeyrir nema í sumum viðskiptum. Hún getur ekki gilt sem lögeyrir í lengri lánaviðskiptum því þar þarf að hafa þá hækju sem er verðtrygging. Það gengur ekki að við höfum gjaldmiðil þar sem fólk getur ekki treyst á ákveðinn stöðugleika heldur sveiflist gengið um tugi prósenta á stuttum tíma.

Ég ætla ekki dæma um hvort menn eigi að taka upp eða velta fyrir sér upptöku á svissneskum franka eða einhverju þess háttar. Það sem skiptir máli er að við tengjumst stóru myntsvæði þannig að sveiflurnar í efnahagslífinu verði ekki með þeim hætti sem um er að ræða meðan við höfum þessa flotkrónu sem við getum ekki búið við, hvorki einstaklingar né viðskiptalíf.