135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

gjaldmiðilsmál.

439. mál
[14:10]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Hún er orðin mjög hvimleið þessi endalausa umræða um krónuna og evruna. Menn ættu að fara að sjá metnað sinn í að hætta þessu horngrýtis kjaftæði.

Það er ástæða fyrir okkur Íslendinga til þess að leggja metnað okkar í að halda sjálfstæði, halda tungunni og halda krónunni, a.m.k. enn um sinn. Það er mergurinn málsins. Þá skiptir máli að hafa vinnufrið fyrir önnur góð mál í þjóðfélaginu án þess að flokkarnir í umhverfi okkar séu að blaðra út og suður.