135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

samtök framhaldsskólanema.

365. mál
[15:00]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir þessa fyrirspurn og um leið fyrir að sýna málefninu þann mikla áhuga sem hann hefur svo sannarlega sýnt — fyrirspurnin er athyglisverð. Ég vil líka taka undir það að rödd framhaldsskólanema víðs vegar að af landinu heyrist mjög sem betur fer. Ég er mjög ánægð með að unga fólkið í dag hefur skoðanir á hlutunum og er ófeimið að tjá sig. Þannig á það líka að vera í opnu lýðræðislegu samfélagi þar sem við viljum hvetja til umræðu á hinum ýmsu sviðum og ekki eingöngu um brýnustu hagsmunamál framhaldsskólanema heldur líka um hin almennu þjóðþrifamál sem við ræðum á hverjum tíma.

Hv. þingmaður spyr hvort ég sem menntamálaráðherra muni beita mér fyrir því að stofnuð verði á ný heildarsamtök framhaldsskólanema en eins og við þekkjum voru heildarsamtökin Félag framhaldsskólanema, FF, lögð niður fyrir rúmum tveimur árum.

Ég tel mikilvægt að framhaldsskólanemar eigi sér öfluga málsvara, jafnt á landsvísu sem innan skólanna. Það er rétt að draga það fram að út um allt land, í öllum framhaldsskólum, eru gríðarlega öflug nemendafélög starfrækt með gróskumikla starfsemi. Engu að síður er mikilvægt að ákveðin heildarsamtök á landsvísu standi vörð um hagsmuni framhaldsskólanna á hinum ýmsu sviðum. Ég segi því: Það var miður að FF, Félag framhaldsskólanema, skyldi leggja upp laupana á sínum tíma.

Ég vil að sama skapi taka fram að hér er að sjálfsögðu um frjáls félagasamtök einstaklinga að ræða og því er ekki eðlilegt að ég sem ráðherra eða sem stjórnvald hlutist til um málefni þeirra. Ég vil einnig benda hv. þingmanni á 39. gr. frumvarps til framhaldsskólalaga — sem verða vonandi að lögum innan tíðar — með leyfi forseta:

„Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendafélag. Nemendafélagið setur sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti nemendafélags, sem skólameistari staðfestir. Nemendafélög starfa á ábyrgð skóla. Framhaldsskólum er heimilt að styrkja starfsemi nemendafélaga fjárhagslega og skal bókhald þeirra háð sömu endurskoðun og aðrar fjárreiður framhaldsskóla“ o.s.frv.

Raunar hafa þegar verið stofnuð, og það er rétt að vekja athygli á því, ný samtök framhaldsskólanema, Samband íslenskra framhaldsskólanema, SÍF. Sambandið tók til starfa 4. nóvember 2007 eftir að átt höfðu sér stað sameiningarviðræður milli Iðnnemasambandsins og hagsmunaráðs íslenskra framhaldsskólanema sem hafði beitt sér mjög ötullega í umræðunni um breytingar á námsskipan til stúdentsprófs.

Samband íslenskra framhaldsskólanema hefur þegar tekið yfir þjónustusamning sem var í gildi milli ráðuneytis menntamála og Iðnnemasambandsins og segja má að nú þegar sé í gildi samningur við þessi nýju samtök. Ég bind sjálf miklar vonir við stofnun nýrra heildarsamtaka framhaldsskólanema og vænti mikils af starfsemi þeirra og samstarfi við þau. Ég vil sérstaklega fagna því að mér finnst þessi sameining undirstrika að samtökin ætla að gæta hagsmuna allra framhaldsskólanema, hvort sem þeir stunda bóknám eða iðn-, starfs- og verknám. Mér finnst það tímanna tákn, og sérstaklega þegar framhaldsskólafrumvarpið er í meðferð þingsins, en eitt meginmarkmið þess frumvarps er einmitt að efla iðn- og starfsnám. Ég tel því mikilvægt að heildarsamtök framhaldsskólanema beini sjónum jafnt að bóknámi sem starfsnámi.

Eins og ég gat um áðan höfum við í rauninni gert þjónustusamning við þessi nýju samtök framhaldsskólanema og vænti ég þess að eiga gott samstarf við þau, m.a. um hin ýmsu mál innan framhaldsskólanna. Ég get nefnt forvarnir. Við erum þegar farin af stað í sameiginlegt forvarnaátak, heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra og samtök framhaldsskólanema, þar sem sjónum verður beint að ungum nemendum innan framhaldsskólanna og er ekki vanþörf á. En þetta er bara eitt af þeim margvíslegu málefnum sem ég tel að við getum átt samvinnu um, samtök sem þessi sem þegar hafa verið stofnuð.