135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

samtök framhaldsskólanema.

365. mál
[15:05]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er þannig með hagsmunasamtök nemenda, og sérstaklega heildarsamtök nemenda á ákveðnu skólastigi, að hagsmunabarátta þeirra beinist að sjálfsögðu að stjórnendum skólanna, að skólastjórum, að skólanefndum og að menntamálayfirvöldum. Þannig er nú bara lífið og þó æskilegast sé að góð samvinna og samræða þróist milli þessara tveggja póla, menntamálayfirvalda og síðan samtaka nemenda, verður alltaf um það að ræða að ekki er um sömu hagsmuni að tefla milli þessara aðila.

Ég held að sá síðasti sem ætti að beita sér fyrir stofnun heildarsamtaka eða skipta sér af félagsmálum framhaldsskólanema eða annarra nemenda sé einmitt menntamálaráðherra. Ég fagna því að hún skuli ekki hafa gert það en skuli hins vegar bjóða til (Forseti hringir.) góðrar samvinnu við þau samtök sem er verið að stofna eða eru nýstofnuð í þessu skyni.