135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

framfærslugrunnur Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

366. mál
[15:18]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Stóra málið er að við höldum áfram að starfrækja öflugan lánasjóð fyrir íslenska námsmenn. Það er stóra málið. Potturinn er alltaf ákveðinn. Síðan er alltaf hægt að ræða það hvernig við deilum úr þessum potti. Ég held að við höfum á síðustu árum verið mjög farsæl varðandi það hvernig við mótum reglur okkar til úthlutunar þess fjármagns sem við höfum yfir að ráða og úr að spila frá lánasjóðnum til námsmanna.

Það hefur sýnt sig að við höfum fjölgað námsmönnum verulega. Við höfum náð að fjölga fjölbreyttum rekstrarformum á háskólastigi og ég held að þetta séu allt saman mjög mikilvægir þættir sem m.a. LÍN hefur stuðlað að. Ég held að við verðum að stíga afar varlega til jarðar ef við ætlum að fara að breyta þessu öllu saman og kollvarpa því kerfi sem maður hefur svo sannarlega notið velvildar frá og fengið gæðastimpil af hálfu erlendra úttektarstofnana.

Meginmálið er að við eigum að halda áfram að styrkja stöðu sjóðsins, reyna að stuðla að því að sem flestir fari í háskólanám og hafi möguleika til þess. Jafnframt eigum við að stuðla að því að skólarnir verði áfram reknir með jafnmiklum myndarbrag og þeir hafa verið reknir fram til þessa á háskólastigi.