135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:34]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin með hæstv. menntamálaráðherra í fararbroddi hefur ákveðið að einkavæða einn stærsta framhaldsskóla á Íslandi, Iðnskólann í Reykjavík, án samráðs við starfsfólk eða nemendur skólans, án almennrar umræðu um málið og án aðkomu Alþingis Íslendinga. Um þetta hefur verið gerður samningur við Menntafélagið ehf. sem fáir þekkja til. Að mínu mati er ekki mikið vitað um getu félagsins til að ráða við það gríðarlega stóra verkefni að reka stærsta framhaldsskóla landsins. Það fór ekkert útboð fram eða athugun á því hvort ekki hefðu fleiri áhuga á því að takast á hendur þetta verkefni. Ég sé ekki að Menntafélagið ehf. hafi heimasíðu en upplýsingar um það er þó að finna í fyrirtækjaskrá sem er aðgengileg á vefsíðu ríkisskattstjóra. Það er eðlilegt í þessari umræðu að spurt sé, hæstv. forseti, hvort hæstv. ráðherra átti sig á markmiðum þessa félags sem hún hefur valið til að reka Iðnskólann í Reykjavík.

Hæstv. forseti. Iðnskólinn hefur átt í áralangri baráttu við skilningssljóa menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hafa markvisst fjársvelt skólann, ég leyfi mér að fullyrða með það að markmiði að koma honum í hendur einkaaðila. Þetta er aðferðin sem beitt var við Tækniháskóla Íslands, við Stýrimannaskólann, við Vélskólann, við Listdansskóla Íslands og þetta er aðferðin sem beitt er í heilbrigðiskerfinu núna undir stjórn fyrsta heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins í 20 ár. Fyrst eru verkefnin fengin einkaaðilum, ríkið borgar og á máli frjálshyggjunnar heitir þetta að nýta kosti einkarekstrarins.

En áður en við verður litið kemur gjaldtakan til skjalanna, þjónustugjöld hækka og á endanum verða það einungis hinir efnameiri sem hafa ráð á að borga fyrir bestu þjónustuna og bestu menntunina. Það eru þau lögmál sem stjórna gerðum þessarar ríkisstjórnar, hvort sem litið er til heilbrigðiskerfisins eða menntakerfisins, og það er ömurlegt að horfa upp á flokk sem kallar sig jafnaðarmannaflokk Íslands skunda þessa braut möglunarlaust.

Árum saman hafa þjóðkjörnir fulltrúar, Samtök atvinnulífsins, samtök í atvinnulífi og skólamenn verið sammála um að gera þurfi stórátak í að efla iðn- og verkmenntun. Menntadagur iðnaðarins og iðnþing liðinna ára hafa oftar en ekki fjallað um þörfina á slíku átaki. Á síðasta menntadegi iðnaðarins sem er nýafstaðinn var fjallað sérstaklega um þörfina á stórauknu fjármagni til námsefnisgerðar fyrir iðn- og verknám. Og að hverjum beindust þær kröfur? Að sjálfsögðu að stjórnvöldum eins og kemur fram í fréttabréfi Samtaka iðnaðarins í síðasta mánuði.

Hvað gerir menntamálaráðherra? Einkavæðir Iðnskólann í Reykjavík. Leysir það vanda ungs fólks í iðnnámi? Leysir það vanda kennaranna þeirra? Leysir þessi einkavæðing skortinn á frambærilegu námsefni í iðn- og verknámi? Nei, hæstv. forseti, en hún gæti falið hann. Hún gæti falið vandann tímabundið. En, hæstv. menntamálaráðherra, það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn.

Hæstv. forseti. Það er líka spurning um peninga í þessum efnum og það hvernig opinberu fé er ráðstafað. Á fjárlögum 2008 er áætlaður rúmur milljarður í rekstur Iðnskólans í Reykjavík, og tæpar 300 millj. í Fjöltækniskólann en samkvæmt samningi menntamálaráðherra við Menntafélagið ehf. mun félagið sem í fyrirtækjaskrá er skráð með 1 millj. kr. í hlutafé ætla að koma með 100 millj. inn í rekstur skólans á móti þessum 1,5 milljörðum ríkissjóðs. Að öðru leyti er ekki ljóst af fréttatilkynningu ráðuneytisins hvaða fjárhagsskuldbindingar eru að baki samstarfssamningnum.

Hæstv. forseti. Í rúmt ár hafa áform um einkavæðingu Iðnskólans í Reykjavík verið á borðum hæstv. menntamálaráðherra en þau hafa ekki verið á borðum starfsfólks eða nemenda skólans og ekki hefur verið haft samráð við menntamálanefnd Alþingis. Ég vil að menntamálaráðherra svari því hvers vegna hún stýri málinu með svo gerræðislegum hætti

Þegar við ræddum þetta mál hér fyrir ári sagði ráðherrann að hún væri áhugasöm um þessa einkavæðingu að því gefnu að leyst yrði úr fjórum álitaefnum: starfsmannamálum, húsnæðismálum, markmiðssetningu og stefnumörkun hins nýja skóla. Og nú er rétt að hæstv. ráðherra greini þingheimi frá því með hvaða hætti hafi verið leyst úr þessum álitamálum og á hvern hátt þessi nýi skóli verði betur í stakk búinn til að takast á við það að mennta ungt fólk í iðngreinum en Iðnskólinn í Reykjavík. Á hvern hátt verður betur búið að starfsfólki og nemendum skólans en nú er eins og ráðherrann sagði í fyrra að væri í sínum huga forsenda sameiningar?

Hæstv. forseti. Það er margt óljóst í þessu máli. Hvað mun þessi einkavæðing kosta nemendur og fjölskyldur þeirra? Hver verða innritunargjöld og námsefnisgjöld sem innheimt verða af nemendum hins nýja skóla og hvernig verður það tryggt að þau hækki ekki frá því sem nú er eins og ráðherrann lofaði í mars í fyrra? Hversu lengi mega nemendur hins nýja skóla gera ráð fyrir því að búa við óbreytt gjöld?

Svo liggur ekkert fyrir um hvernig hinn nýi skóli verði skilgreindur, hvort hann verður skilgreindur sem iðnskóli samkvæmt iðnlögum — eða hvers vegna er orðið „iðn“ fjarlægt úr nafni hans?

Hæstv. forseti. Hvað ef tilraunin tekst ekki? (Forseti hringir.) Þá er spurning hvort það verður ekki of seint að endurreisa Iðnskólann í Reykjavík.