135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:39]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að fá mér þetta góða tækifæri til að ræða einmitt þessa merkilegu sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands og þann samning sem gerður hefur verið við Menntafélagið ehf. um rekstur hins nýja skóla til næstu fimm ára.

Til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég þó í upphafi taka fram að hér er ekki um einkavæðingu að ræða heldur einkarekstur, þ.e. þjónustusamning við Menntafélagið um að taka að sér verkefni sem hafa verið á höndum Iðnskólans í Reykjavík og sinna áfram þeim verkefnum sem áður voru hjá Stýrimannaskólanum og Vélskóla Íslands. Það er ekkert óljóst í þessu málum. Einkaaðilar taka í rauninni að sér ákveðna þjónustu fyrir hönd ríkisins.

Þrátt fyrir orð þingmannsins get ég heldur ekki tekið undir að þessi áform hafi ekki hlotið neina umræðu. Það er tóm þvæla. Þvert á móti hafa hugmyndirnar hlotið víðtæka umræðu í samfélaginu, í fjölmiðlum, hér á Alþingi og víðar. Einföld leit á netinu mundi til að mynda skila þingmanninum vel á annað þúsund síðum þar sem þessi mál eru einmitt til umræðu.

Hugmyndir um að Menntafélagið tæki að sér verkefni Iðnskólans í Reykjavík og sameinaði þau starfsemi Fjöltækniskóla Íslands voru t.d. rækilega kynntar kennurum og nemendum í upphafi ferilsins og hefur skólameistari Iðnskólans upplýst kennara skólans og skólanefnd reglulega um framgang málsins. Samningar við framhaldsskóla heyra undir ráðuneyti menntamála sem framkvæmdarvald og hefur Alþingi og menntamálanefnd þess ekki formlega aðild að slíkum samningum. Þingmenn hafa, eins og hv. þingmaður vitnar til, nýtt sér rétt sinn til fyrirspurna um málið og að sjálfsögðu verður samningurinn kynntur fyrir menntamálanefnd verði þess óskað.

Hvað varðar spurningar þingmannsins um húsnæðismál, starfsmannamál, markmið og stefnu hins nýja skóla segir í samningi við Menntafélagið að öllum fastráðnum starfsmönnum verði tryggð áframhaldandi störf með fullum réttindum. Félagið fær afnot af núverandi húsnæði Fjöltækniskólans og Iðnskólans en aðilar munu vinna sameiginlega að lausn húsnæðismála vegna afhendingar húsnæðis Vörðuskóla, sem Iðnskólinn hefur haft til nota, til Reykjavíkurborgar.

Að Menntafélaginu standa Samtök iðnaðarins, Landssamtök íslenskra útvegsmanna sem hafa skuldbundið sig til að leggja verulegt fé til hins nýja skóla og munu ásamt hinum ýmsu fagfélögum í iðn- og starfsgreinum koma að mótun námsframboðs í hinum nýja skóla. Ráðgert er að stofna sérstök fagráð við skólann með aðild launþega og fagfélaga sem munu taka þátt í að móta starfið.

Menntafélagið hefur um nokkurra ára skeið rekið Fjöltækniskólann af miklum myndarbrag að mínu mati og ég tel mikinn akk í því að fá samtök úr ýmsum greinum atvinnulífsins að rekstri iðn- og starfsnáms með jafnbeinum hætti og nú er raunin og fá þau til að axla ábyrgð til þess einmitt að móta nám og námsframboð. Sérstaklega verða hin nýju lög sem vonandi verða samþykkt á vordögum til þess að stuðla að eflingu og viðgangi iðnnáms í landinu enn frekar.

Þingmaðurinn spyr einnig um innritunargjöld nemenda. Hinn nýi skóli mun starfa samkvæmt lögum um framhaldsskóla og lúta ákvæðum þeirra laga, þar á meðal um heimildir til gjaldtöku. Ekki eru í samningnum við Menntafélagið fyrirhugaðar breytingar á þeim gjöldum sem nemendur greiða í dag.

Hvað þá spurningu varðar hvort skólinn sé skilgreindur sem iðnskóli samkvæmt iðnaðarlögum er það að segja að iðnaðarlög skilgreina ekki sérstaka iðnskóla. Ákvæði þeirra laga geyma skilyrði til að mega stunda iðnaðarstarfsemi hér á landi en þar á meðal er að hafa lokið burtfararprófi frá iðnskóla. Það er rétt í þessu sambandi að geta þess einnig að í hjúalögunum frá 1928 — mér fannst oft málflutningur hv. þingmanns bera keim af þeim tíma — er talað um rétt hjús til að sækja nám í iðnskóla. Í dag mun líklega vera átt við iðn- og verkmenntaskóla samanber 1. gr. laga um framhaldsskóla.

Hvað fjárskuldbindingar varðar er í samningi ráðuneytisins við Menntafélagið gert ráð fyrir að framlög vegna nemendaígilda verði þau sömu og nú eru til Iðnskólans og Fjöltækniskólans. Samningurinn við Menntafélagið er til fimm ára og er uppsegjanlegur með sex mánaða fyrirvara. Kveðið er á um að árlega verði farið yfir árangursmælikvarða sem settir hafa verið út frá markmiðum samningsins en þar er skýrt kveðið á um markmið samningsins, m.a. að minnka brottfall o.s.frv., allt mælanleg markmið sem við munum fara í sameiningu yfir reglubundið.

Ríkið heldur nafni Iðnskólans í Reykjavík, eignum hans og húsnæði og semur árlega um mótun skólastarfsins. Því ætti að vera einfalt að endurreisa Iðnskólann ef viðunandi árangur næst ekki. Svo svartsýn er ég þó ekki.

Ég vil að lokum segja að ég tel að með þessum samningi hafi verið tekið stórt skref til að efla iðn- og starfsnám á Íslandi. Í samningunum setja samningsaðilar sér mjög metnaðarfull markmið til næstu ára og ég hvet þingmenn til að kynna sér þá yfirlýsingu sem við undirrituðum um daginn.

Ég fagna líka sérstaklega aðkomu Menntafélagsins að þessum rekstri. Ég óttast hvorki einkarekstur né tel hann vera af hinu illa eins og sumir. Þvert á móti er ég sannfærð um gildi hans og vísa til þeirrar reynslu sem fengist hefur á síðustu árum í háskólakerfinu þar sem einkareknir háskólar hafa að ýmsu leyti verið brautryðjendur á mörgum sviðum.

Þegar ákvörðun var tekin um að leyfa einkaaðilum að koma að rekstri háskóla sætti það mikilli gagnrýni á Alþingi. Það gerðist einnig þegar tekin var ákvörðun um að sameina Háskólann í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands. Þessi gagnrýni kemur yfirleitt alltaf úr sömu átt, þetta eru alltaf sömu raddirnar, frú forseti, og þær hafa alltaf haft rangt (Forseti hringir.) fyrir sér.