135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:49]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp þó að ég sé ekki alveg sammála því hvernig hún horfir til þessara mála. Ég var einn af skólanefndarmönnum í Stýrimannaskólanum á sínum tíma og verð að viðurkenna að ég var frekar varfærinn í þeirri afstöðu að breyta þeim skóla í Fjöltækniskólann og það kann að hafa verið út af tilfinningasambandi við skólann minn. Ég lít hins vegar svo á að það skref sem stigið var hafi orðið þeim skóla og menntuninni til góðs miðað við þá þróun sem hefur orðið í þjóðfélaginu og að vissulega þurfti að taka á rekstrarforminu m.a. vegna minnkandi aðsóknar að Stýrimannaskólanum sem ég tel reyndar að okkar illa hannaða kvótakerfi eigi m.a. sök á en það er annar handleggur.

Hér er ekki verið að einkavæða skóla heldur færa hann í ákveðið rekstrarform og gera tilraun með það til næstu fimm ára. Ég held að við verðum einfaldlega að vænta þess að vel takist til. Mér sýnist að það hafi tekist þokkalega við rekstur Fjöltækniskóla Íslands og þess vegna sé ég ekki neitt því til fyrirstöðu að gera þá tilraun sem hér er gerð. Ég vænti þess að hún takist vel og að Samtök atvinnulífsins komi að þessu verki af fullum heilindum eins og mér sýnist vera stefnt að og við séum í raun og veru að efla iðn- og starfsmenntun í landinu og að það skref sem nú er stigið í Reykjavík verði ekki til þess að rýra menntunina annars staðar á landinu því að þá væri illa farið, hæstv. forseti.