135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:53]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Maður hlýtur að varpa fram þeirri spurningu hvaða hagsmunum hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir telji að hún sé eiginlega að þjóna með þeim stóryrta málflutningi sem við höfum orðið vitni að í dag. Hér er talað um að það sé skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn vegna sameiningar þessara tveggja skóla og samnings menntamálaráðherra við Menntafélagið ehf. Telur hv. þingmaður að með ræðu sinni og málflutningi á hinu háa Alþingi sé hún að gæta hagsmuna skólans eða þeirra nemenda sem þar stunda nám? Telur hv. þingmaður að staða kennara við skólann batni eitthvað við málflutning eins og þennan? Og telur hv. þingmaður að ræða hennar hér um þetta mál sé til þess fallin að efla iðn- og starfsnám? Heldur hv. þingmaður að ræðan auki áhuga ungs fólks á því að leggja stund á iðn- og starfsnám? Ég get svarað öllum þessum spurningum neitandi, auðvitað er svo ekki. Ræður eins og sú sem hér var haldin um mikilvægi þess að endurreisa Iðnskólann í Reykjavík vegna þessa samnings gera ekkert annað en að grafa undan skólanum, því námi sem þar er boðið upp á og það er ekki til þess fallið að efla iðn- og starfsnám.

Markmið sameiningar þessara skóla er að efla og styrkja iðn- og starfsnám til framtíðar. Fulltrúar þeirra atvinnugreina sem að því verkefni koma eru best til þess fallnir að móta slíka framtíðarsýn sem nauðsynleg er. Það hafa þeir gert og sýnt hug sinn í verki með því að leggja strax 100 millj. kr. til þróunarstarfs innan skólans og hafa þar sýnt vilja sinn í verki svo um munar. Er þetta slæmt, frú forseti? Það finnst mér ekki. (Forseti hringir.) Ég tel að með þessum samningi hafi menntamálaráðuneytið og þeir sem að honum koma stigið veigamikið skref í því að efla iðn- og starfsnám á Íslandi (Forseti hringir.) og við eigum að hrósa fólki fyrir slíkt.