135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:58]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að spyrja í allri hógværð: Hvaða voðalegu læti eru þetta? Það liggur fyrir að búið var að gera samning við Menntafélagið um reksturinn á Fjöltækniskólanum sem hefur verið í gildi frá 2003 og enginn hefur heyrt eða sagt annað en að það hafi gengið bærilega og þetta er bara framhald á þeim samningi um rekstur þessa nýja skóla.

Að gefnu tilefni vil ég benda hv. þm. Ögmundi Jónassyni á að það er mikill munur á einkavæðingu og einkarekstri. Það er ekki verið að selja neinn skóla, það er verið að gera samning um að viðkomandi félag reki þennan skóla og það er tilgangurinn með þessu máli að gera góðan skóla að betri skóla. Það er engin mismunun höfð í frammi, öllum er jafn og opinn aðgangur að skólanum. Þetta félag og þetta samstarf er undir þeim formerkjum að ekki er ætlast til þess að ágóði verði af rekstri þessa skóla og ef um ágóða er að ræða rennur hann til skólarekstursins aftur. Hér er um að ræða eflingu menntunar sem hefur átt undir högg að sækja að undanförnu, það hefur verið mikið brottfall í iðnnámi og með þessu skrefi standa vonir til að bætt verði þar úr.

Ég tel þetta vera mjög jákvætt spor og undrast allan þann hávaða og öll þau mótmæli sem þyrlað er upp og tel að það sé fyrst og fremst moldviðri.