135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

losun kjölfestuvatns.

424. mál
[18:19]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þannig er mál með vexti að losun lífvera með kjöfestuvatni á íslenskum hafsvæðum var lengi vel ekki talið vandamál. Rökin fyrir því voru að flest skip sem kæmu til landsins væru lestuð vörum og þyrftu því ekki að losa kjölfestu hér við land. Stór hluti vöruflutninganna var frá hlýrri hafsvæðum og var ætlað að lífverur sem hugsanlega væru í kjölfestunni ættu erfitt með að ná fótfestu hér við land ef um slíkt væri að ræða.

Undanfarin ár hafa áhyggjur hins vegar vaxið af flutningi lífvera milli hafsvæða með kjölfestuvatni, m.a. vegna hlýnunar sjávar og frétta af tilvikum þar sem orðið hefur skaði af völdum framandi lífvera á lífríki. Umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun fylgjast grannt með þróun mála á þessum vettvangi enda miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur Íslendinga. Það verður hins vegar að segjast eins og er að ekki liggja fyrir nákvæmar rannsóknir á því hversu mikið er um að skip losi kjölfestuvatn á íslensku hafsvæði en ekki er hægt að útiloka losun hér við land, t.d. vegna lestunar iðnaðarframleiðslu svo sem á áli eða járnblendi.

Hjá OSPAR-samningnum, um verndun Norðaustur-Atlantshafsins, hefur á undanförnum mánuðum verið unnið að leiðbeinandi reglum um losun kjölfestuvatns á svæðinu. Í síðustu viku voru þær endanlega samþykktar af öllum aðildarríkjum OSPAR. Þessar reglur eru ekki lagalega bindandi en stefnt er að því að innleiða þær með reglugerð í íslenskan rétt á árinu að höfðu samráði við hagsmunaaðila og umhverfisráðuneytið er að vinna að því.

Hvað varðar síðari fyrirspurnina þá er sá samningur sem hv. þingmaður á við samningur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um meðferð kjölfestuvatns. Samningurinn hefur ekki tekið gildi þar sem aðeins 12 lönd með samanlagt 3,5% af heildartonnafjölda kaupskipa heims hafa staðfest hann en til þess að hann taki gildi þurfa 30 ríki með 35% af heildartonnafjölda að staðfesta hann. Það er hins vegar sjálfsagt að Ísland verði með fyrri skipunum, ef þannig má að orði komast, til að staðfesta samninginn ef það má verða til þess að draga úr hættu á flutningi óæskilegra lífvera með kjölfestuvatni og skapa viðbótaröryggi við reglugerðina sem fyrirhugað er að setja á grundvelli leiðbeininga OSPAR.

Ég mun láta skoða þetta samhliða reglugerðarsmíðinni sem er brýnni í þessu samhengi þar sem samningur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar hefur ekki tekið gildi. Ef það er hins vegar mat sérfræðinga okkar og hagsmunaaðila að það sé mikilvægt fyrir íslenska hagsmuni að staðfesta samninginn mun ég leggja til að undirbúningur þess verði hafinn sem fyrst en eins og með aðra alþjóðasamninga er það hæstv. utanríkisráðherra sem ber hann upp til staðfestingar.