135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

losun kjölfestuvatns.

424. mál
[18:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Þau eru eins og hægt var að ímynda sér að þau gætu verið á þessu stigi máls. Það er jákvæður vilji til þess að skoða málið í ráðuneytinu og beita sér fyrir fullgildingu samningsins af Íslands hálfu ef það leiðir í ljós að lokinni athugun að það sé talið nauðsynlegt.

Ég vil segja sjálfur sem skoðun mína eftir athugun málsins að ég tel engan vafa leika á því að það eru miklir hagsmunir í húfi og að við tryggjum þá betur en nú er með því að stuðla að því að þessi samningur geti öðlast gildi. Það sem fyrst og fremst þarf að fylgjast með, virðulegi forseti, er hvenær þau skip sem hingað koma með kjölfestuvatn skiptu síðast um vatn, þannig að hægt sé að fá upplýsingar um þetta atriði þegar skipin koma til landsins og haga málum í samræmi við það, því að það er ekki sama hvaðan þau koma eða hvenær þau tóku síðast vatn og hvar það var hvort þeim er heimilt að losa á rúmsjó eða við íslenskar strendur eða þurfi að losa í tanka í höfn. Allt þetta þarf að metast af þessum upplýsingum sem nauðsynlegt er að fá fram.

Ég hvet til þess, virðulegi forseti, að umhverfisráðuneytið fyrir sitt leyti vinni áfram að þessu máli eins og ráðherrann hefur gefið til kynna og vænti þess að málið fái farsælan endi þannig að takist að auka öryggið og viðhalda því öryggi sem verið hefur varðandi varðveislu vistkerfisins í hafinu við Ísland.