135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

losun kjölfestuvatns.

424. mál
[18:24]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er kannski ekki miklu við það svar að bæta sem ég gaf áðan en það er samt mikilvægt að halda því til haga að hvað varðar samning Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar þurfa ríki að eiga hlutdeild í kaupskipaflota heimsins til þess að geta stuðlað að því að samningurinn taki gildi. Hvað varðar reglugerðina þá erum við að vinna að henni í umhverfisráðuneytinu úr því sem kemur frá OSPAR-samningnum. Þetta eru leiðbeinandi reglur en við munum setja þær í samræmi við íslenskan rétt og vonandi núna síðar á árinu.

Ég ætla hins vegar að viðurkenna það, frú forseti, að ég hafði sjálf ekki gert mér grein fyrir því að við vissum í raun ekkert um það hvar og hvenær og hvernig menn losuðu kjölfestuvatn hér við strendur landsins eða í landhelginni og að því leyti til opnaði þessi fyrirspurn augu ráðherra fyrir ákveðnum vanda sem ég held að við ættum ekki að gera lítið úr.