135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

áhrif af samdrætti í þorskveiðum.

423. mál
[18:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör sem mér finnst að mörgu leyti varpa skýrara ljósi á ákvörðun ríkisstjórnarinnar í sumar en verið hefur eða legið hefur fyrir. Í fyrsta lagi dreg ég þá ályktun af svörunum að það sé ómögulegt að spá fyrir um áhrifin af samdrættinum eða niðurskurðinum nema þrjú ár fram í tímann. Fiskifræðingarnir ráða því ekki við það, þeir hafa ekki nægar upplýsingar til þess að geta gert sé grein fyrir áhrifunum lengra fram í tímann en þrjú ár og það er mjög athyglisvert hversu skammt þekking þeirra nær hvað þetta varðar.

Í öðru lagi dreg ég þá ályktun af því sem kom fram í svörum ráðherrans að það eru 95% líkur á því að leyfð veiði eftir þrjú ár verði innan við 190 þúsund tonn. Ég hef leyft mér að halda því fram að þessi áætlun sé byggð á því að það verði 130 þúsund tonna veiði í þrjú ár, síðan verði hægfara aukning upp í 190 þúsund tonn á þremur árum þaðan í frá þannig að samdráttarferlið verði sex ár. Ég fékk þá kenningu ekki staðfesta í svörum hæstv. ráðherra en ég verð þó að segja að mér finnst að hún hafi styrkst í ljósi þess sem fram kom hjá hæstv. ráðherra. Ég held að menn verði þá, að því gefnu að ríkisstjórnin haldi sínu striki hvað þetta varðar, að horfa á stöðuna í sjávarbyggðum landsins í miklu alvarlegra ljósi en menn hafa þó áttað sig á til þessa.