135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

áhrif af samdrætti í þorskveiðum.

423. mál
[18:37]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei, eins og hv. þingmaður veit, treyst mér til þess að spá langt fram í tímann á grundvelli þeirra upplýsinga sem hef haft einfaldlega vegna þess að það eru svo margir óvissuþættir sem vega inn í þetta, m.a. þyngdarþróunin í fiskinum sem hefur auðvitað afgerandi áhrif þarna. Hins vegar held ég að það hafi komið skýrt fram hjá mér að þetta upplegg sem við höfum lagt af stað með hefur alltaf gengið út frá því að uppbyggingin yrði ekki í neinum stökkum en hún yrði vonandi uppbygging og þær tölur sem ég var hér að vísa til um býsna hraða uppbyggingu hrygningarstofnsins og raunar viðmiðunarstofnsins líka, undirstrika það. Það er auðvitað ávinningur sem ég held að við eigum ekki að horfa fram hjá, 50% aukning annars vegar og 20% aukning hins vegar á þessum tíma. Síðan hefur auðvitað ástandið í hafinu heilmikið að segja um það hvernig þetta mun svo ganga eftir.

Ég vísaði til þess að það væri miðað við að við værum með veiðihlutfall 20%, þá væru aðeins 5% líkur á því að við gætum veitt 190 þúsund tonn eða meira á árinu 2011. Þá skulum við ekki gleyma því að þegar við gætum veitt 193 þúsund tonn, sem er sú tala sem þarna var verið að vísa til, var veiðihlutfallið nærri 30%, 28 komma eitthvað prósent, tæplega 29%, þannig að ef við ætlum að skoða þetta í því samhengi finnst mér eðlilegt að við skoðuðum þá hugsanlegt veiðihlutfall í samræmi við það.

Þess vegna held ég að það sé auðvitað rétt að við eigum að forðast að vera með einhverjar langtímaspár en engu að síður er þetta fullkomin vísbending um það sem kann að vera.