135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við verðsamráði olíufélaganna.

415. mál
[18:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að leggja hér fram fyrirspurn til fjármálaráðherra um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við verðsamráði olíufélaganna. Það er óþarfi að fara ítarlega í aðdraganda þess. Þegar Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á ólögmætu samráði olíufélaganna í desember 2001 kom það mönnum kannski ekki svo mjög á óvart en þegar rannsókninni lauk í janúar 2005 varð uppvíst að mati Samkeppnisstofnunar að olíufélögin hefðu hagnast um 6,5 milljarða kr. þannig að enda þótt þau hafi verið dæmd til þess að greiða hálfan annan milljarð í sekt áttu þau eftir 5 milljarða kr.

Allflestir í samfélaginu urðu fyrir barðinu á þessu framferði olíufurstanna að einhverju leyti enda flestir í nútímasamfélagi háðir kaupum á olíuvörum og ekki síst ríkið. Á því tímabili sem hér um ræðir mun ríkið í sex eða sjö tilvikum hafa boðið út kaup á olíuvörum, m.a. fyrir Vegagerðina, Landhelgisgæsluna, Símann, Póstinn og lögregluumdæmi.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru rædd í tvígang á Alþingi á árinu 2005 en þá þegar hafði Reykjavíkurborg höfðað mál gegn olíufélögunum þremur, Keri, Skeljungi og Olís. Nú er nýfallinn dómur í Hæstarétti í máli Reykjavíkurborgar. Hann féll 9. febrúar sl. og þar kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að sýnt sé að olíufélögin hafi með ólöglegu samráði bakað Reykjavíkurborg tjón. Borginni voru dæmdar 73 milljónir í skaðabætur og 6 millj. kr. voru dæmdar í bætur til Strætós, auk vaxta og málskostnaðar. Þessi dómur er talinn fordæmisgefandi, einkum vegna þess að hann er þannig orðaður að það er talið að erfitt verði fyrir olíufélögin að halda því fram að þau hafi ekki haft hag af samráðinu eða að þau hafi ekki bakað öðrum tjón.

Ég vil spyrja af þessu tilefni hvar málið sé statt. Orðalag fyrirspurnar minnar gefur til kynna að þegar ég setti hana fram vissi ég ekki af því að ríkið hafði 7. febrúar 2006 höfðað mál því það hefur lítið farið fyrir fréttum af því. En ég spyr hæstv. ráðherra: Hverjar eru bótakröfurnar og hvar er málið statt?