135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

þjónustusamningar um málefni fatlaðra.

406. mál
[18:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Mér barst nýlega í hendur ályktun frá þroskaþjálfum í Vestmannaeyjum sem dagsett er 23. janúar 2008 en ályktunin er svohljóðandi, með leyfi frú forseta:

Þroskaþjálfar í Vestmannaeyjum lýsa yfir þungum áhyggjum vegna þeirra áhrifa sem ólokinn þjónustusamningur milli ríkis og Vestmannaeyjabæjar er farinn að hafa á starfsemi í málefnum fatlaðra. Nú er komið á annað ár frá útrunnum þjónustusamningi og við þetta ástand getum við sem störfum í málaflokknum ekki unað. Við þroskaþjálfar í Vestmannaeyjum skorum á viðsemjendur, ríkið og Vestmannaeyjabæ, að klára samninginn hið fyrsta. Við skorum á ríkið að leggja til það fjármagn sem til þarf svo að hægt sé að starfa hér á viðunandi máta með tilliti til þróunar og stefnu í málefnum fatlaðra.

Undir þessa ályktun rita þroskaþjálfarnir Binna Hlöðversdóttir, Hulda Líney Magnúsdóttir, Guðbjörg Guðmundsdóttir og Jóhanna Hauksdóttir. Samrit af ályktuninni var send hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, aðstoðarmanni ráðherra, ráðuneytisstjóra, bæjarstjóra Vestmannaeyja og framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar.

Þessi ályktun sem mér barst í hendur gaf mér tilefni til þeirrar fyrirspurnar sem ég ber hér upp við hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra: Í fyrsta lagi er spurt að því hvað valdi því að þjónustusamningur milli ríkis og Vestmannaeyjabæjar um málefni fatlaðra sem rann út árið 2006 hafi ekki verið endurnýjaður og hver sé staða viðræðna um endurnýjun samningsins.

Í öðru lagi er spurt að því hversu margir þjónustusamningar ríkis við sveitarfélög um málefni fatlaðra bíði endurnýjunar og við hvaða sveitarfélög. Ég tel afar brýnt að styrkja þessa umönnun, þessa þjónustu við fatlaða, og þá verður ramminn að vera klár og augljós. Ég bendi líka á það að þetta varðar fyrst og fremst atvinnu kvenna og atvinnustaða þeirra og atvinnutækifæri á landsbyggðinni eru almennt bágborin.

Það er illt að svo langur tími hefur liðið frá því að þjónustusamningurinn rann út og ég vænti þess að hæstv. ráðherra félags- og tryggingamála bregðist við og gefi mér og þeim þroskaþjálfum sem ályktunina sömdu skýr svör.