135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

þjónustusamningar um málefni fatlaðra.

406. mál
[18:49]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mál en félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur síðastliðið ár unnið að endurnýjun þjónustusamninga við þau sveitarfélög sem hafa tekið að sér að sjá um þjónustu við fatlaða samkvæmt lögum um málefni fatlaðra og þeim reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í lögunum gegn ákveðinni greiðslu úr ríkissjóði.

Með þessum þjónustusamningi hafa ráðuneytið og Vestmannaeyjabær ákveðið að halda áfram því samstarfi sem hófst í janúar 1997 en síðasti samningur gilti til 31. desember 2006. Báðir samningsaðilar hafa fallist á efni samningsins, þ.e. þjónustusamningsins milli ráðuneytisins og Vestmannaeyjabæjar og til stendur að undirrita hann á næstu dögum. Samningurinn gildir út árið 2008 og jafnframt er í samningnum fjárhagslegt uppgjör vegna ársins 2007.

Í samningnum eru margar nýjungar frá fyrri samningi og er hann jafnframt ítarlegri og tryggir enn betur stöðu samningsaðila en fyrri samningur. Meginmarkmið samningsins er að samþætta þjónustu við fötluð börn og fullorðna í heimabyggð og fella hann eins og frekast er unnt að starfsemi annarra þjónustuaðila. Með þessu er gert ráð fyrir að framkvæmd þjónustunnar sé nær notendum hennar og því sé allt aðgengi að henni greiðara. Það er mat samningsaðila að með þessum samningi náist aukin skilvirkni, betri nýting fjármuna og að gæði þjónustunnar verði meiri.

Í samningi þessum er þess einnig sérstaklega gætt að hugað sé að réttindagæslu til handa fötluðum börnum og fullorðnum sem tryggir rétt þeirra til þjónustu svo og sjálfsákvörðunarrétt fullorðinna.

Þá er gert ráð fyrir að notað verði nýtt þjónustumat við að leggja mat á hvers konar þjónustu sé þörf í Vestmannaeyjum og í hvaða mæli. Mun þetta nýja mat auðvelda allt verklag við mat á þjónustuþörfum þannig að auðveldara verður fyrir aðila að komast að niðurstöðu.

Jafnframt hefur það legið fyrir frá upphafi að hugað hefur þurft að ýmsum málum sem ekki hafa verið auðveld úrlausnar. Það er m.a. skýringin á hvað þetta hefur dregist þar sem halli hefur verið á rekstrinum hjá Vestmannaeyjabæ miðað við fyrri þjónustusamninga sem gerðir voru við bæinn. Ástæða þess var fyrst og fremst að rekstur kertaverksmiðjunnar og rekstur sambýlisins í Vestmannaeyjum hefur reynst þungur í skauti. Fulltrúar ráðuneytisins hafa fundað reglulega síðustu mánuði með fulltrúum Vestmannaeyjabæjar og á þessum fundum hefur verið reynt að skýra þá kostnaðarhækkun sem orðið hefur á þjónustu við fatlaða í Vestmannaeyjum.

Í fyrirliggjandi samningi er gert ráð fyrir verulegri hækkun fjárveitinga frá fyrri samningi en um er að ræða tæpar 24 millj. kr. eða hækkun úr 87 millj. kr. í rúmar 110 millj. kr.

Ég fagna þeirri niðurstöðu sem náðst hefur við þessa samningagerð. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ráðuneytinu, fötluðum og starfsmönnum málaflokksins fyrir bestu að Vestmannaeyjar sjái áfram um þjónustu við fatlaða í sveitarfélaginu.

Hv. þm. Atli Gíslason spurði hversu margir þjónustusamningar ríkis við sveitarfélög um málefni fatlaðra bíði endurnýjunar og við hvaða sveitarfélög.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur síðastliðið ár unnið að endurnýjun þjónustusamninga við þau sveitarfélög er hafa tekið að sér að sjá um þjónustu við fatlaða samkvæmt lögum um málefni fatlaðra og þeim reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í þeim lögum gegn ákveðinni greiðslu úr ríkissjóði.

Síðasta sveitarfélagið í þessum hópi er Vestmannaeyjabær. Því bíða engir samningar endurnýjunar og vona ég að þetta svari fyrirspurnum hv. þingmanns.