135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

þjónustusamningar um málefni fatlaðra.

406. mál
[18:57]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vel hægt að taka undir að það er bagalegt þegar dráttur reynist við að koma á þessum samningum. Ég hygg að á því séu nokkrar skýringar m.a. þær sem ég nefndi hér áðan að það hefur tekið tíma að ná saman um t.d. kertaverksmiðjuna og sambýlið sem hafa verið þyngri fjárhagslega en menn töldu.

Síðan hefur það komið upp, ekki bara í þessum samningum heldur kannski líka öðrum samningum þar sem ráðuneytið hefur verið að gera þjónustusamninga, að ágreiningur hefur verið um hvort ákveðnir hlutir, ég nefni til dæmis um liðveislu sem sveitarfélögin hafa viljað setja yfir á ríkið, falli undir ríkið eða sveitarfélög. Eins og hv. þingmaður veit skiptist liðveisla og frekari liðveisla annars vegar milli ríkisins og sveitarfélaganna og menn hafa þurft að liggja yfir þessu. Það hefur sem sagt verið ágreiningur um kostnað við kertaverksmiðjuna og síðan hvar ýmis stuðningsúrræði ættu að liggja.

Ég held að mikilvægast sé að þessir samningar hafa náðst. Þó að þetta hafi tekið langan tíma þá hefur ýmislegt komið út úr þessu og haft góð áhrif á alla umræðu. Félagsþjónustan í Vestmannaeyjum hefur t.d. áhuga á auknu samstarfi við ráðuneytið og svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi. Einnig hefur Félagsþjónustan komið á laggirnar samstarfi við Sjónarhól, ráðgjafarmiðstöð og fleiri aðila í þessu ferli.

Þarna er um verulegar breytingar að ræða, 24 millj. kr. aukning. Ég býst við því að menn hafi viljað hafa gildistímann ekki lengri heldur en til 2008 til þess að meta þá reynsluna af þessum nýja samningi. Vonandi vinda menn sér þá nýjan samning áður en þessi rennur (Forseti hringir.) út þannig að þetta geti legið fyrir fyrr. (Forseti hringir.) Ég vil taka fram út af orðum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að báðir aðilar hafa fallist á efni samningsins nú.