135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

orkuframleiðsla.

[10:52]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það getur vel verið að það sé áhugamál hv. þm. Péturs H. Blöndal að virkja Dettifoss og virkja Gullfoss (Gripið fram í.) og í raun og veru pakka saman miðhálendi Íslands og virkja þar alla orku sem hægt er að hafa.

Ég ber svo sem fulla virðingu fyrir því að hann hafi þessar skoðanir. En ég leyfi mér að efast um að hv. þingheimur deili þeim með honum hvort sem það eru stjórnarliðar eða stjórnarandstæðingar. Ég hef a.m.k. ekki í minni níu mánaða ráðherratíð orðið vör við það að menn hafi almennt áhuga á því að virkja alla orku á Íslandi til álframleiðslu, nema náttúrlega hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hefur á því mikinn áhuga og mér er kunnugt um það.

Nú þegar fara um það bil 85%, gætu verið 90% íslenskrar orkuframleiðslu til stóriðju. Allur þorri orkunýtingar á Íslandi fer til stóriðju. Það má því segja að ef mönnum finnst það sanna frómt hlutverk Íslands á hinu alþjóðlega sviði þá ætti það að nægja einhverjum. En það er hins vegar þannig, og ég vil biðja hv. þingmenn að reyna að ræða þessi mál með málefnalegum hætti, að það er hægt að framleiða ál í öðrum löndum. Það er hægt að framleiða ýmislegt um allan heim. Það eru mörg brýn mál sem þarf að leysa. Það þarf að leysa loftslagsvandann. Það þarf að berjast gegn fátækt í heiminum. Það þarf að berjast fyrir jöfnuði. Það þarf að berjast fyrir kvenfrelsi. Þetta gerum við með ýmsum hætti. En við kannski gerum það ekki með því að leggja landið, þjóðina, samfélagið og efnahagslífið undir eina tegund (Forseti hringir.) atvinnustarfsemi.