135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

norræna ráðherranefndin 2007.

452. mál
[11:20]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það þarf að finna lausn á þessu máli, það þarf að sætta þarna ákveðin sjónarmið. Ég segi fyrir þann hóp sem ég starfa í innan Norðurlandaráðs, vinstri græni flokkahópurinn er á því að skýrslan sem við höfum mikið fjallað um og hæstv. ráðherra nefndi Norðurlönd – sigursvæði á heimsvísu, „Norden som global vinderregion“, við höfum reyndar viljað gagnrýna þessa skýrslu talsvert, okkur finnst hún æði hægri sinnuð og hefðum viljað að aðrir þættir væru látnir vega þar jafnþungt eða þyngra þegar hnattvæðingarverkefnin eru diskúteruð á vettvangi ráðsins. Við hefðum viljað segja að við eigum að fara fram til sigurs, Norðurlandaþjóðirnar, ekki endilega í nafni hnattvæðingar á forsendum fjármagns eða viðskipta heldur á forsendum þeirrar samstöðu sem við höfum náð að sýna í samfélögum okkar, á forsendum þess velferðarkerfis sem við höfum náð að byggja upp og á allt öðrum forsendum en þeim sem eru meginþráðurinn í skýrslunni „Norden som global vinderregion“. Ég hefði viljað eiga orðastað um innihald þessara hnattvæðingarverkefna. Mér finnst afskaplega mikilvægt að púðrið sé sett í toppfundinn í Kaupmannahöfn 2009, þar verði ráðum okkar ráðið. Þar eigum við að vera með málþingin, þar eiga fræðsluverkefnin okkar að kristallast og springa út. Þar eiga skilaboð Norðurlandanna til alheimsins að komast á framfæri. Þess vegna tel mjög mikilvægt að púðrið sé sett í toppfundinn í Kaupmannahöfn og að þeim 1.200 milljónum sem væntanlega fara í hnattvæðingarverkefni ráðherranefndarinnar í ár og á næsta ári verði beint eins og mögulegt er inn á vettvang toppfundarins 2009.