135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

norræna ráðherranefndin 2007.

452. mál
[11:48]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir meginatriðin í sambandi við það sem hv. þm. Árni Páll Árnason rakti í ræðu sinni. En það var eitt sem hann vék að í lok ræðu sinnar sem ég staldraði aðeins við, það var þegar hann talaði um hina hnattrænu hlýnun sem við höfum í sjálfu sér ákaflega takmarkaðar vísindalegar staðreyndir um.

Heimurinn hefur iðulega verið mun hlýrri og sjávarborð mun hærra en nú er og það er ekkert sem segir okkur að sú hlýnun sem nú er stafi af mannavöldum. Eða hver var hlýnunin sem var á jörðinni fyrir 7.000 árum?

Maður les um það í þessari ágætu og vel unnu skýrslu að ráðgert sé að halda ráðstefnu í Kaupmannahöfn árið 2009 til þess að taka mun meira á þessum málum og setja strangari reglur en Kyoto-bókunin gerir ráð fyrir. En ef menn skoða hvaða þýðingu Kyoto-bókunin mundi hafa ef allar þjóðir færu eftir henni — nú gera mestu mengunarvaldarnir það ekki, þ.e. ekki Indland, Kína eða Bandaríkin en ef allar þjóðir færu eftir henni þá þýðir hún ekki annað en það að við yrðum á sama stað árið 2115 án Kyoto eins og við værum annars árið 2100. Það munar einungis 15 árum, það er nú ekki meiri árangur sem næst.

Á sama tíma kostar þetta gríðarlega fjármuni, billjónir á billjónir ofan sem á að eyða í þetta og fyrir það fé mætti gera hluti sem mundu verða líklegri til þess að vera umhverfisvænni en það sem verið er að gera ráð fyrir með þessum hætti. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal vék réttilega að í morgun þá skiptir máli fyrir okkur Íslendinga að nýta m.a. okkar vistvænu orkugjafa sem við höfum yfir að ráða svo ekki þurfi að moka (Forseti hringir.) upp kolum og koma upp kolaverum í Kína.