135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

norræna ráðherranefndin 2007.

452. mál
[11:50]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þingmann um það hvort loftslagsbreytingar séu af mannavöldum. Ég held að það sé fullsannað mál og óþarfi að berja hausnum við steininn í því efni.

Hv. þingmaður fór nokkuð í hringi í röksemdafærslu sinni. Ég held akkúrat að sú staðreynd að Íslendingar eiga vistvæna orkugjafa eigi að vera okkur hvatning til þess að kalla eftir ströngum og hörðum reglum um útblástur, til þess að styrkja samkeppnisstöðu okkar á alþjóðlegum vettvangi. Við eigum að hvetja til stífra reglna, því þar með búum við í haginn fyrir okkur út frá röksemdafærslu hv. þingmanns.

En þetta snýst ekki bara um okkur heldur snýst þetta líka um aðrar þjóðir. Þetta snýst um fátækar þjóðir sem hafa af því mikinn hag að við styðjum þær við sjálfbæra orkuöflun, bæði með nýtingu vistvænna orkugjafa og með aukinni fjárfestingu í rannsóknum á núverandi orkugjöfum til þess að gera nýtingu þeirra vistvænni. Líka til þess að styðja við starf þar, t.d. gegn gróðureyðingu sem er ein helsta ástæða landeyðingar og efnahagslegrar óáranar.

Ég held þess vegna að þarna falli allt hvað með öðru. Við megum heldur ekki gleyma því að það eru margar breytingar í vistkerfinu núna og það er óþarfi að horfa 7.000 ár aftur í tímann. Það voru kannski aðrar kröfur sem við gerðum til jafnvægis í vistkerfinu á þeim tíma. Við vitum að sjórinn fer stöðugt hlýnandi hér úti fyrir landinu, við vitum að það eru miklar breytingar að koma fram í vistkerfinu hér. Margir setja þetta í samhengi við breytingar á fiskgengd þannig að ég held að það sé engin ástæða fyrir okkur að (Forseti hringir.) líta fram hjá mögulegum skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga.