135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

norræna ráðherranefndin 2007.

452. mál
[11:52]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum vafalaust verið sammála um það að láta náttúruna njóta vafans. En hins vegar verða menn að fara fram af fullri skynsemi í því hvernig þeir ætla að taka á þeim málum. Það er alltaf spurningin um hvort á að eyða gríðarlegum fjármunum í það að fylgja því sem Kyoto-bókunin tekur til eða nýta hugsanlega þá fjármuni með öðrum hætti, t.d. til að leyfa meiri losun. Þá fjármuni sem kæmu til viðbótar ætti hins vegar að nýta til þess að skapa vistvænna umhverfi, ekki síst í þróunarlöndunum þar sem fólk líður fyrir það að hafa ekki rennandi vatn, eðlilega heilbrigðisaðstöðu og annað í þeim dúr. Það skiptir líka gríðarlegu máli. Það er alltaf spurningin með hvaða hætti og hvernig við forgangsröðum. Það er alveg ljóst að það sem þarna er verið að boða kostar gríðarlega fjármuni. Það hefur alltaf verið horft fram hjá því að þetta mun kosta atvinnulífið og stjórnvöld í þeim ríkjum sem taka þátt í þessari tilraun gríðarlega fjármuni.

Þegar ég segi að við eigum að láta náttúruna njóta vafans þá eigum við að gera það en við eigum ekki að falla í það að vera sporgöngumenn einhverrar pólitískrar veðurfræði, einhverra pólitískra hugmynda sem hafa ákaflega stuttan þróunarferil. Það er ekki lengra síðan en upp úr 1980 sem svipaðir aðilar hinnar pólitísku veðurfræði þá, spáðu fyrir að kuldaskeið væri að hefjast en ekki að loftslag færi hlýnandi.

Það er nú einu sinni þannig með þær helvítisspár sem við erum iðulega að fá frá ýmsum að það er verið að skapa vá. Það er verið að segja að vegna þess að þessi vá getur komið þá þurfum við að gera ráðstafanir sem takmarka möguleika okkar til betri lífskjara. Síðast var það í sambandi við fæðuöflun en núna í sambandi við loftslagsbreytingar. En það er spurningin um að við lifum eðlilegu lífi í veröldinni. (Forseti hringir.)