135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

norræna ráðherranefndin 2007.

452. mál
[11:55]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður trúir ekki vísindamönnum um hættuna af loftslagsbreytingum þá get ég prófað aðra útgáfu á hann. Fyrir mér er þetta ekki síður spurningin um félagslegt réttlæti. Ég held að það sé margljóst að án breyttra áherslna í sjálfbærri nýtingu auðlinda er tómt mál að tala um að fátæk ríki komist til bjargálna. Án þess að við komum með þeim hætti sem nú er stefnt að í nýjum alþjóðasamningum böndum á ósjálfbæra orkunýtingu ríkari hluta heimsins þá stöndum við í vegi fyrir framþróun þeirra fátækari.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni um að það er náttúrlega alls ekki nægur árangur af aðgerðum á sviði loftslagsmála ef Kyoto-samningurinn væri það eina sem stefnt væri að. Þess vegna skiptir svo miklu máli að samstaða myndist um markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og ég fagna orðum hv. þingmanns en ég túlka þau þannig að hann styðji stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að stefna að 25–40% samdrætti á næsta losunartímabili.

Það er nákvæmlega þangað sem þetta er að stefna, við verðum að stefna í enn stífari og harðari reglur. Ég vil undirstrika það í lokin að af þessum 60 millj. danskra króna sem nú er stefnt að því að verja í hnattvæðingarverkefni Norðurlandaráðs þá hefur verið lögð mikil áhersla á rannsóknir og þróun ávistvænum orkugjöfum.

Það sem við höfum horft til að verði innlegg norræns samstarfs til leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna 2009 í Kaupmannahöfn er útlistun á vistvænum orkugjöfum og þeirri reynslu sem við höfum á þeim vettvangi á Norðurlöndunum. Þar höfum við auðvitað mikla reynslu, bæði af nýtingu vatnsfalla og nýtingu jarðhita og þar hafa Norðurlöndin líka mikla reynslu, af nýtingu vindorku og nú í rannsóknum á sólarorku sem standa mjög framarlega. (Forseti hringir.)