135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[12:20]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Norrænt samstarf hefur verið Íslandi mjög mikilvægt gegnum tíðina og má í því sambandi nefna samnorræna atvinnu- og menntamarkaði sem standa Íslendingum opnir. Ég vil líka nefna mjög víðtækt samstarf á embættismannasviði, embættismenn norrænna ríkja hittast reglulega eins og stjórnmálamenn gera líka og ég tel að það hafi haft geysilega mikil áhrif á löggjöf hér á landi. Hún væri með allt öðrum hætti ef þetta víðtæka norræna samstarf væri ekki fyrir hendi.

Ég vil líka nefna að sveitarfélögin eru í miklu norrænu samstarfi. Það byggist m.a. á vinabæjarsamstarfi sem er mjög mikilvægt og einnig stundar fjöldinn allur af grasrótarsamtökum mikið og blómlegt norrænt samstarf, einnig skólar og svo Norræna félagið — ég vil gjarnan nefna það sérstaklega því að það heldur utan um svo mikið af þessu samstarfi okkar.

Í Norðurlandaráði er stöðugt til umræðu að reyna að bæta það umhverfi sem Norðurlandabúar búa við. Þar er mjög horft til félagslegra og umhverfislegra þátta utan við atvinnumarkaðinn. Ég held að það sé við hæfi í umræðunni um norrænt samstarf á árinu 2007 að sú er hér stendur greini nánar frá starfi einnar af málefnanefndum ráðsins, þ.e. velferðarnefndarinnar, þar sem ég er formaður nefndarinnar. Tók ég þar við formennskukeflinu af mætum þingmanni sem ekki gaf kost á sér til endurkjörs í síðustu alþingiskosningum, Jóni Kristjánssyni, og vil ég nota tækifærið hér og þakka honum fyrir góð störf í þágu velferðarnefndar og ráðsins alls eins og hans er von og vísa.

En áður en ég kem inn á störf velferðarnefndarinnar í Norðurlandaráði vil ég aðeins segja nokkur orð um öryggismálin sem formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Árni Páll Árnason, gerði ágæt skil hér áðan. Það er alveg ljóst að það er mjög mikilvægt fyrir Ísland við breyttar aðstæður að öryggismál á norðurslóðum séu eins og best verður á kosið. Því er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að stuðla að því á þann hátt sem okkur er mögulegt og Norðurlandaráð er nærtækur vettvangur til þess. Eftir að loftslagsbreytinga tók að gæta í auknum mæli, og þiðnun íssins norður frá varð greinanlegri, hafa augu heimsins og sér í lagi Norðurlanda opnast fyrir því aðkallandi verkefni sem það er að búa svo um hnútana að hægt sé að fyrirbyggja og bregðast við skakkaföllum sem geta orðið, til að mynda varðandi björgunarmál á sjó. Auknar siglingar stærri flutninga- og farþegaskipa í kjölfar greiðari siglingaleiða krefjast þess beinlínis að við gerum ráðstafanir. Skemmst er að minnast strands Wilsons Muuga í því sambandi. Það er flókið að sigla í Norðurhöfum og veður oft mikil og það þarf að passa mjög vel upp á björgunarmálin. Við gætum þurft að horfa upp á miklu stærri slys á sjó en við höfum séð áður, bæði hvað varðar þann mannfjölda sem getur verið í hættu og líka hvað varðar umhverfið og á ég þá við siglingar stórra olíuskipa.

Áður hefur verið minnst á að gerðir hafa verið tveir samningar um varnar- og öryggismál og björgunarmál á Norður-Atlantshafi. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, þá utanríkisráðherra, skrifaði undir samninga við bæði Norðmenn og Dani og þeir samningar eru okkur mjög mikilvægir, þessir rammasamningar. Ég vil líka nefna að utanríkisnefnd norska Stórþingsins var hér í fyrra og heimsótti utanríkismálanefnd og var þá komið inn á þessa rammasamninga. Það var greinilegt að Norðmennirnir höfðu sömu tilfinningu og við Íslendingar fyrir því hvað þessir samningar væru mikilvægir. Í næstu viku mun íslenska utanríkismálanefndin fara til Noregs og ræða aftur við utanríkisnefnd norska Stórþingsins um þessi mál og önnur, hvernig haldið er á EES-málunum í Stórþinginu, þróunarsamvinnumál og það sem okkur finnst bera hæst í samstarfi landanna.

Umræðan um öryggis- og björgunarmál á vettvangi Norðurlandaráðs sýnir okkur hvernig áherslur og umfjöllun í ráðinu hafa breyst á síðustu árum. Umræðurnar um utanríkismál á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló voru með öðrum hætti en þegar sú er hér stendur tók þátt í norrænu samstarfi fyrst á vettvangi þjóðþinganna. Það var fyrir 12 árum eða svo þannig að mjög margt hefur breyst á alþjóðavettvangi og Norðurlandaráð beinir nú sjónum sínum í auknum mæli út á við eins og áhersla þess á hnattvæðinguna ber vitni um. Nærsvæðasamstarf ráðsins er einnig mikilvægur þáttur í starfsemi þess. Má þar nefna það samstarf sem Norðurlöndin hafa átt við Eystrasaltsríkin á síðustu áratugum sem án vafa hefur verið skerfur til stöðugleika á svæðinu. Það var eftirtektarvert í tengslum við öryggismálaumræðuna á forsætisnefndarfundinum í Reykjavík hversu mikill samhugur og samstaða ríkti innan Íslandsdeildarinnar um það mál. Voru allir sammála um að Ísland ætti að beita sér í því máli og framsetning tillagna frá landsdeild með þessum hætti er ekki algeng í dag eftir að vægi flokkahópanna innan Norðurlandaráðs jókst þannig að það var gleðiefni hve góð samstaða tókst í þessu máli.

Á sviði velferðarmála hafa ýmis mál verið til umfjöllunar á síðasta ári hjá velferðarnefnd Norðurlandaráðs og vil ég nefna nokkur. Tvær tillögur sem nefndin afgreiddi urðu að tilmælum ráðsins til norrænu ráðherranefndarinnar, annars vegar um geðheilbrigðismál og hins vegar um starfsfólk í heilbrigðisstéttum.

Tilmælin um geðheilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum miða að því að Norðurlöndin móti norræna stefnu á sviði geðheilbrigðismála sem þjóni því hlutverki að vera umgerð um miðlun, reynslu og samstarf milli norrænu landanna. Í tilmælunum eru líka tilgreindar aðgerðir sem felast skuli í áætluninni. Dæmi um aðgerðir sem lagðar eru til eru að vinna gegn fordómum í samfélaginu gagnvart geðrænum vandamálum, að gera úttekt á og tillögur um aðgerðir ríkis og sveitarfélaga varðandi húsnæðisúrræði og stuðning í daglegu lífi fyrir einstaklinga með geðfatlanir, og aukin áhersla er lögð á þróun þekkingar og menntun starfsfólks og sérfræðinga á sviði geðlækninga.

Önnur tillaga sem var til umfjöllunar í velferðarnefnd Norðurlandaráðs og varð að tilmælum ráðsins er á þann veg að norrænu ríkin hafi frumkvæði að því að gera alþjóðasamning sem fjalli um ráðningar ríkra ríkja á heilbrigðisstarfsfólki frá þróunarríkjum. Í dag er mjög mikil tilhneiging til þess að hin ríkari ríki lokki til sín heilbrigðisstarfsmenn frá þróunarríkjunum og í svo miklum mæli að í sumum þróunarríkjum eru ekki nógu margir læknar, hjúkrunarfræðingar og heilbrigðisstarfsfólk til að sinna bólusetningum og heilbrigðismálum almennt. Það hefur verið nefnt að í Frakklandi eru fleiri læknar frá Benín en er í Benín sjálfu. Á Manchester-svæðinu í Bretlandi eru sömuleiðis fleiri heilbrigðisstarfsmenn frá Malaví en í Malaví sjálfu og hlutfall heilbrigðisstarfsmanna frá vanþróuðum ríkjum fer hækkandi á Norðurlöndum. Þrýstingurinn er auðvitað mikill af því að hlutfall eldri borgara er að hækka í okkar heimshluta og þá verður tilhneigingin þessi. Meðan við erum ekki nógu dugleg að mennta sjálf heilbrigðisstarfsfólk og halda því að störfum freistumst við til að lokka til okkar heilbrigðisstarfsfólk frá öðrum ríkjum. Norðurlandaráð vill að menn snúi þessu við og mun beita sér í því á næstunni.

Ég vil einnig nefna að velferðarnefnd Norðurlandaráðs hefur skoðað stöðuna í Murmansk í Norðaustur-Rússlandi. Mjög mikil tengsl eru við það svæði yfir til norrænna ríkja, landamæri nokkurra norrænna ríkja liggja að Norðaustur-Rússlandi. Við skoðuðum ástandið í Murmansk hvað varðar berkla og þá sérstaklega fjölónæma berkla, sem engin meðferð dugir á, og hvað varðar eyðni og alnæmi. Menn sjá hækkandi tölur í þessum heimshluta, í Norðaustur-Rússlandi, og er eðlilegt að norrænu ríkin geri það sem í þeirra valdi stendur til aðstoðar svo að hægt verði að koma böndum yfir starfsemi heilbrigðisþjónustunnar á þessu svæði.

Ég vil einnig nefna mál sem hefur verið rætt á sameiginlegum fundi velferðarnefndar Norðurlandaráðs og neytendanefndarinnar. Það var gert fyrir stuttu og eðlilegt að við miðlum reynslunni frá þeim vettvangi hingað inn á Alþingi. Þar fengum við upplýsingar um transfitusýrur. Danir hafa sett sérstaka löggjöf um hlutfall transfitusýra í mat og nú hefur ratað inn í þingið þingsályktunartillaga er sú sem hér stendur er 1. flutningsmaður að en ásamt mér eru nokkrir hv. þingmenn úr Íslandsdeild Norðurlandaráðs á tillögunni, m.a. hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Árni Páll Árnason og Björk Guðjónsdóttir ásamt fleiri þingmönnum sem eru hvorki aðal- né varamenn í Norðurlandaráði. Tillagan á því rætur í norrænu samstarfi og vona ég að hún verði samþykkt en þá munum við tryggja að hlutfall tranfitusýra í mat á Íslandi verði lágt.

Ég vil líka gera að umfjöllunarefni nærsvæðasamstarf Norðurlandaráðs sem ég kom aðeins inn á í upphafi ræðu minnar. Í október á síðasta ári gafst mér tækifæri til að taka þátt í málþingi í Litháen sem Norðurlandaráð skipulagði með þátttöku þingmanna frá Norðurlöndunum, þingmanna frá Eystrasaltsríkjunum, þingmanni frá Hvíta-Rússlandi og fulltrúum stjórnarandstöðuflokka frá Hvíta-Rússlandi — þeir eru reyndar ekki í þinginu þar enda tæpast hægt að kalla Hvíta-Rússland lýðræðisríki. Málþingið var mjög eftirminnilegt fyrir þær sakir hve viðkvæm og jafnvel brothætt sú umræða sem þar átti sér stað var en rætt var um loftslagsmál og hlutverk þingmanna á breyttum tímum. Að sjálfsögðu beindist umræðan mjög mikið að lýðræði í Hvíta-Rússlandi og er ljóst, virðulegi forseti, að sú tengslamyndun sem varð á þessari fyrstu ráðstefnu sinnar tegundar getur orðið mjög dýrmæt þegar fram líða stundir við að efla lýðræði og stöðugleika í Hvíta-Rússlandi ef vel er á spilum haldið. Málþingið tókst afar vel og því verður fylgt eftir með öðru málþingi í upphafi næstu viku og mun ég sækja það. Ég tel að ef vel tekst til í framhaldinu gæti þetta frumkvæði Norðurlandaráðs undirstrikað enn frekar mikilvægi nærsvæðasamstarfs ráðsins og tengslastarfs Norðurlandanna á alþjóðavettvangi. Það er alveg ljóst að Norðurlandaráð spilaði geysilega stóra rullu þegar Eystrasaltsríkin urðu frjáls og var hlutverkið aðallega fólgið í því að minnka velferðargjána á milli Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna. Þar liggja mjög mikil öryggissjónarmið að baki og nú þarf að teygja sig lengra austur. Hvíta-Rússland er upplagt ríki til að efla tengslin við og það hefur Norðurlandaráð sett á dagskrá.

Ég vil líka nefna vestnorræna samstarfið sem nokkrir hv. þingmenn hafa gert að umræðuefni. Ég vil sérstaklega fagna því að á síðasta ári var opnuð aðalræðisskrifstofa Færeyja við Austurvöll en fyrir skömmu opnuðum við sendiráð í Færeyjum. Við höfum líka gert mjög mikilvægan tvíhliða samning um fríverslun við Færeyinga, Hoyvíkursamninginn svokallaða. Það var rætt á síðasta ári í vestnorrænu samstarfi hvort Grænlendingar gætu tekið þátt í þeim samningi líka og var það tekið fyrir á fundi á Húsavík. Efasemdir komu frá Grænlendingum um að þeir mundu ganga alla leið í því en þeir óskuðu þó eftir því að það yrði skoðað hvort Grænland gæti verið með í hluta samningsins og hlýtur að vera spennandi að skoða hvort það sé hægt.

Ég vil líka nefna á síðustu metrunum í ræðu minni, virðulegi forseti, að í norrænu samstarfi felast mikil tækifæri fyrir okkur. Ég tel t.d. mikil tækifæri til útrásar á norðurslóðum fyrir Íslendinga. Talið er að um 20% af olíu- og gasauðlindum heimsins sé að finna á Barentssvæðinu og nú þegar mjög mikill óróleiki er við botn Miðjarðarhafs líta margir þangað norður eftir hvað varðar fjárfestingar. Það á að fjárfesta á svæðinu fyrir 140 þús. milljarða kr. á næstu árum í olíuiðnaði og norska ríkisstjórnin hefur sett það mál mjög ofarlega á dagskrá, sett upp 11 manna ráðherranefnd sem á að fylgjast með því. Ég tel að við Íslendingar getum verið þátttakendur í þeirri útrás sem þar verður, við erum vön því að vinna á norðlægum slóðum og erum í næsta nágrenni.