135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[12:56]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða og efnismikla ræðu, hún nefndi mörg athyglisverð atriði.

Ég er prestssonur og hefur alltaf leiðst sá plagsiður presta að skamma þá sem mæta í kirkju fyrir lélega kirkjusókn. Ég vildi því ekki færa fjarveru samstarfsráðherra sérstaklega í tal við hv. starfandi samstarfsráðherra, Kristján Möller, meðan hann var hér áðan. Þetta er af vangá og við þurfum að læra af þessu. Engum dettur í hug að ræða samgönguáætlun að samgönguráðherra fjarstöddum og engum dettur í hug að ræða utanríkismál að utanríkisráðherra fjarstöddum, það er slysalegt að þetta gerðist og við verðum að gæta þess næst að samstarfsráðherra verði hér viðstaddur.

Ég vil aðeins í þessu samhengi benda á, og líka í framhaldi af orðum hv. þingmanns um áherslurnar í aðdraganda leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna 2009 og áherslur Norðurlandanna í loftslagsmálum í því efni, að vissulega er hér um stórt verkefni að ræða en líka gríðarlega spennandi verkefni, ekki síst í ljósi þess að svo vel vill til að hæstv. samstarfsráðherra tekur við formennsku í hópi samstarfsráðherra í byrjun næsta árs þannig að þessi fundur verður á formennskutímabili hans, og hæstv. umhverfisráðherra mun þá leiða umhverfisráðstefnu Norðurlanda. Þetta er því að sjálfsögðu einstakt tækifæri fyrir okkur til að koma skynsamlega og vel að málum og vinna vel. Ég bind við það miklar vonir að takist. Í kjölfarið árið eftir verður Ísland síðan með forsætið í Norðurlandaráði og getur þá haft forustu um að vinna úr því sem þarna gerist. Ef skynsamlega er á málum haldið er því hægt að stilla þessar tímasetningar nokkuð vel af þannig að við eigum að geta haft þarna mikil áhrif ef við viljum.

Ég vil líka undirstrika að utanríkisráðherra lýsti í ræðu sinni um utanríkismál í haust norrænu samstarfi og aðild okkar að Norðurlandaráði sem einum af grunnþáttum íslenskrar utanríkisstefnu. Sú yfirlýsing hlýtur að hafa áhrif á þá forgangsröðun sem stjórnvöld marka í kjölfarið.