135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[12:59]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að þessi undirbúningur hefjist fljótt. Ég vil taka fram að við höfum átt mjög gott samstarf við hæstv. samstarfsráðherra um þau mál sem á okkur hafa brunnið undanfarið. Hann tók upp á vettvangi samstarfsráðherra athugasemdir Íslandsdeildarinnar við fjárveitingar til upplýsingaskrifstofanna og hafði mikinn árangur af því starfi. Hann hefur staðið góðan vörð um fjárveitingar til Norræna hússins á þessum vettvangi og ég treysti því að við eigum áfram gott samstarf við hann í þeim efnum.

Menn eiga að horfa til þessa fundar sem nokkurs konar heimsstefnu eða heimssýningar um umhverfismál, um áherslur í rannsóknum og þróun, um áherslur í nýjum lausnum til að taka á loftslagsvandanum og að þar sé allt undir, líka kynningar þeirra fyrirtækja sem eru með búnað til að selja þannig að í sjálfu sér sé um að ræða vísindastefnu, almannaráðstefnu og kaupstefnu, allt í senn. Þessa hugsun þarf að útfæra og verður það skemmtilegt verkefni að fá að móta þetta. Ekki síst verður það skemmtilegt fyrir ráðherrann að fá að vera í forustu fyrir því að móta hið norræna svar að þessu leyti.