135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

NATO-þingið 2007.

449. mál
[14:05]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir ársskýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2007 sem lögð hefur verið fram á þingskjali 712 og ég vil fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum.

NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Tólf lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra; Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands, sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnsattræna öryggiskerfi.

Starfsemi NATO-þingsins árið 2007 einkenndist öðru fremur af umræðu um breytingar á hlutverki NATO sem gengur í gegnum umbreytingaskeið um þessar mundir, ekki síður en við lok kalda stríðsins. Bandalagið hefur á undanförnum árum aðlagað sig að breyttu öryggisumhverfi og brugðist við nýjum og óhefðbundnum ógnum á borð við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi, veikburða ríki og útbreiðslu gereyðingarvopna. Áhersla hefur verið lögð á að draga úr hefðbundnum herafla og endurskipuleggja hersveitir með áherslu á aukinn viðbragðsflýti, hreyfanleika og sveigjanleika. Þessar breytingar miða að því að auka getu NATO til þess að takast á við margvísleg verkefni á sviði friðargæslu, aðgerðastjórnun á hættutímum, aðgerða utan hefðbundins athafnasvæðis og til að starfa með ríkjum utan NATO. Aðgerðum utan hefðbundins athafnasvæðis NATO hefur fjölgað stórlega og ná yfir fleiri heimsálfur. Mikil eftirspurn er eftir aðstoð bandalagsins enda er það svo að fæst önnur svæðisbundin samtök hafa bolmagn til að taka að sér stór friðargæslu- og uppbyggingarverkefni.

Umfangsmesta verkefni NATO er í Afganistan og er það um leið tákngervingur hinna miklu breytinga hjá bandalaginu. Aðgerðin í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta í sögu bandalagsins en um 43.000 menn frá 26 NATO-ríkjum og 14 samstarfsríkjum eru í sveitum bandalagsins. Afganistan var því eins og síðustu ár mjög í brennidepli á vettvangi NATO-þingsins árið 2007. Lögðu þingmenn áherslu á að aðgerðin í Afganistan væri prófsteinn á getu bandalagsins til þess að takast á við nýjar ógnir og nýtt öryggisumhverfi og að tryggja þyrfti árangur hennar.

Önnur umfangsmikil mál á borði NATO-þingsins undanfarin missiri hafa verið uppbygging eldflaugavarnakerfis gegn langdrægum eldflaugum, frekari stækkun bandalagsins til austurs, sem margir eiga von á að ákvarðanir verði teknar um á leiðtogafundi NATO í Búkarest í næsta mánuði, og orkuöryggi aðildarríkjanna. Öll þessi mál tengjast viðkvæmum samskiptum bandalagsins við Rússland.

Á tímum sem þessum, tímum mikilla breytinga, er mikilvægt að kjörnir fulltrúar almennings í aðildarríkjunum hafi áhrif á starfsemi NATO. Hlutverk þingmanna í mótun og framkvæmd öryggis- og varnarmála hefur aukist í takt við breytt öryggisumhverfi. Öryggismál hafa á undanförnum árum þróast frá því að snúast að mestu um hefðbundið hernaðaröryggi og milliríkjaátök yfir í að fjalla meira um hryðjuverkaógnir, náttúruhamfarir, umhverfisslys og flóttamannastrauma. Þessar svokölluðu óhefðbundnu ógnir hafa ekki síður bein áhrif á öryggi almennra borgara í ríkjum Atlantshafsbandalagsins en þær hefðbundnu. Þar er aðkoma og ábyrgð þingmanna mikil þar sem þjóðþingin setja lög til þess að efla varnir og viðbúnað gegn hryðjuverkum, styrkja lögreglu og treysta almannavarnir. Þá ákveða þingin fjárframlög til varnarmála, veita heimild til beitingar hervalds og fjalla um og heimila breytta uppbyggingu herja.

NATO-þingið tryggir lýðræðislegt aðhald með starfsemi Atlantshafsbandalagsins og að rödd þingmanna sem kjörinna fulltrúa almennings hafi áhrif á stefnumótun bandalagsins. Þingið er þannig mikilvægur milliliður á milli bandalagsins og íbúa aðildarríkjanna. NATO-þingið hefur enn fremur unnið ötullega að því að styðja við uppbyggingu lýðræðislegra stjórnkerfa í Austur-Evrópu. Það hefur m.a. verið gert með því að bjóða þjóðþingum ríkja utan NATO til samstarfs með aukaaðild að þinginu og styðja þau síðar í aðildarumsóknum. Þá er þingið mikilvægur vettvangur til þess að styrkja samstarfið yfir Atlantsála á milli aðildarríkjanna í Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar.

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um ársfund NATO-þingsins sem fram fór í Reykjavík 5.–9. október síðastliðinn en þar var Íslandsdeildin í hlutverki gestgjafa. Þetta var í fyrsta sinn sem ársfundur NATO-þingsins fer fram hér á landi og jafnframt stærsti fundur alþjóðlegra þingmannasamtaka sem Alþingi hefur haldið. Alls sóttu um 700 þátttakendur frá 48 ríkjum ársfundinn, þar af um 350 þingmenn NATO-ríkjanna og samstarfsríkja bandalagsins auk tignargesta eins og Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, og Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu. Ákvörðun um að bjóða Reykjavík fram sem fundarstað var tekin árið 2003 en undirbúningur hófst af fullum þunga að loknum fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins í Reykjavík í mars 2005. Íslandsdeild NATO-þingsins og skrifstofa Alþingis höfðu veg og vanda af skipulagningu ársfundarins í samstarfi við skrifstofu NATO-þingsins og fjölmarga aðra samstarfsaðila. Skemmst er frá því að segja að ársfundurinn heppnaðist í alla staði mjög vel.

Mikilvægi þess að halda ársfund NATO-þingsins hér á landi var margþætt. Í fyrsta lagi gafst einstakt tækifæri til þess að kynna NATO-þingmönnum stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi og það hvað Íslendingar geta lagt af mörkum til bandalagsins, t.d. á sviði borgaralegrar friðargæslu, æfingaaðstöðu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og tæknikunnáttu á sviði orkumála. Á tímum vitundarvakningar um mikilvægi vistvænna orkugjafa, m.a. með tilliti til orkuöryggis, er Ísland fyrirmynd sem litið er til og í fararbroddi á heimsvísu í nýtingu jarðvarma.

Í öðru lagi var fundurinn í Reykjavík vettvangur til þess að beina sjónum NATO-þingmanna að öryggismálum á norðurslóðum. Á ársfundinum og á öðrum fundum NATO-þingsins tók Íslandsdeildin öryggismál á norðanverðu Atlantshafi og norðurskautssvæðinu upp með kröftugum hætti. Vægi norðurslóða og norðurskautssvæðisins í öryggismálum hefur aukist vegna ríkra náttúruauðlinda og möguleika á nýjum siglingaleiðum. Loftslagsbreytingar og bráðnun íss við norðurskautið hafa í för með sér að miklar olíu- og gaslindir svæðisins eru að verða aðgengilegar og mikilvægi þeirra mun einungis vaxa með aukinni áherslu á orkuöryggi. Þá er útlit fyrir að nýjar siglingaleiðir muni opnast sem stytta leiðina milli Evrópu og Asíu verulega. Íslandsdeildin hefur bent á að aukin umsvif við auðlindanýtingu og siglingar kalli á aukna öryggissamvinnu NATO-ríkja á þessu svæði, m.a. til að fylla upp í tómarúmið sem myndaðist við brotthvarf varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Á ársfundinum kom fram í máli framkvæmdastjóra NATO að bandalagið hefur til skoðunar hvernig það geti komið að öryggismálum á norðurslóðum og við í Íslandsdeildinni munum fylgja málinu eftir og halda því á lofti innan NATO-þingsins.

Í þriðja lagi var fundurinn hér á landi veigamikið framlag okkar til Atlantshafssamstarfsins og hluti af þeirri skyldu að axla ábyrgð til jafns við önnur bandalagsríki. Á tímum kalda stríðsins fólst framlag okkar til NATO einkum í legu landsins og þeirri aðstöðu sem við höfðum upp á að bjóða. Þeirri tíð lauk með brottför varnarliðsins og síðan hefur farið fram nokkur umræða um í hverju framlag Íslands til NATO eigi að vera fólgið. Það að Alþingi Íslendinga var gestgjafi ársfundar NATO-þingsins er lóð á þá vogarskál enda mikilvægt og sýnilegt framlag þegar við bjóðum þingmenn bandalagsríkja okkar velkomna til fundar hér í Reykjavík.

Herra forseti. Eins og fyrr sagði tókst afar vel til með ársfund NATO-þingsins hér á landi. Á fundum sem ég hef setið á NATO-þinginu síðan hefur kollegum mínum orðið tíðrætt um hversu vel heppnaður ársfundurinn var og hversu ánægjuleg Íslandsdvölin reyndist. Starfsfólk Alþingis sinnti flestum þeim störfum sem féllu til í Laugardalshöll á meðan á ársfundinum stóð og lyfti þar sannkölluðu grettistaki. Þegar mest var voru um 50 starfsmenn Alþingis þar við störf og tryggðu að framkvæmd þessa viðamikla fundar gekk fyrir sig eins og vel smurð vél. Ég vil hér fyrir hönd Íslandsdeildar þakka öllu því starfsfólki sem lagði hönd á plóginn og tryggði að fundurinn tókst eins vel og raun bar vitni.

Að síðustu langar mig að minna stuttlega á skipan Íslandsdeildarinnar. Ný Íslandsdeild tók við eftir kosningar skipuð þeirri sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Ástu R. Jóhannesdóttur og Magnúsi Stefánssyni. Fram að kosningum skipuðu deildina hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson, Einar Oddur Kristjánsson heitinn og Dagný Jónsdóttir. Hvað varðar verkaskiptingu innan Íslandsdeildar og skiptingu í nefndir NATO-þingsins vísa ég í skýrsluna sem hér liggur fyrir. Í þessu stutta yfirliti gefst ekki tími til að fara yfir þau fjölmörgu mál og málaflokka sem sinnt hefur verið af NATO-þinginu heldur er aðeins tæpt á helstu atriðum. Gleggri upplýsingar um starfsemi þingsins má finna í skýrslunni og ég vísa aftur í hana. Ég vil að lokum nota tækifærið til að þakka gott samstarf og einhug í deildinni og veit að við munum áfram keppast við að halda íslenskum hagsmunamálum á lofti innan NATO-þingsins eftir því sem við á.

Einnig vil ég sérstaklega þakka ritara nefndarinnar, Stíg Stefánssyni, fyrir frábær störf fyrir okkur í Íslandsdeildinni og afar gott samstarf.