135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2007.

448. mál
[14:51]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú þannig að það gengur varla hnífurinn á milli okkar hv. þm. Bjarna Benediktssonar þegar kemur að umræðum um Evrópumál og EES-samninginn og það er ánægjulegt. Ég tek undir með honum í því efni, eins og ég gat um ræðu minni, að það er þýðingarmikið að við fylgjum eftir þeim tillögum sem komu fram í skýrslu Evrópunefndarinnar að öðru leyti og lýtur að hugsanlegri starfsstöð Alþingis í Brussel og möguleikum þingflokkanna til að eiga samskipti við systurþingflokka sína á Evrópuþinginu. Hann nefnir það að völd Evrópuþingsins og áhrif hafa verið að aukast og munu væntanlega aukast þá er kannski ekki síður mikilvægt að treysta þetta. Við áttum reyndar kost á því að fylgjast með störfum Evrópuþingsins á fundi þess í Strassborg nú í nóvember og fulltrúar í EFTA-nefndinni áttu kost á því að hitta systurþingflokka. Það var mjög gagnlegt að hitta fólk og fá að taka þátt í og fylgjast með störfum systurþingflokkanna, þannig að ég held að þetta sé allt á sínum stað.

Varðandi gerðirnar og hugsanlega þýðingu finnst mér mikilvægt að fjallað sé faglega um það sem er í farvatninu og er hugsanlega að koma inn í íslensk lög eða íslenskar reglur og gefi sér til þess góðan tíma. Frá mínum bæjardyrum séð er sjálfsagt að gera þá kröfu að slíkir pappírar séu þýddir á íslensku til að taka hér til umfjöllunar. Vera kann að í tilteknum tilvikum sé það einhvers konar úttekt eða samantekt á greinargóðu yfirliti um innihald viðkomandi gerða en í öllu falli er mikilvægt að við getum fjallað um þessi mál á vettvangi þingsins.