135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

staða sjávarplássa landsins.

[15:07]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu umræðuefni og deila með okkur þeim upplýsingum sem hann hefur fengið í þeim fjölda samtala sem hann hefur átt við bæjarstjóra vítt og breitt um landið. Það eru auðvitað mjög miklar upplýsingar sem fólgnar eru í því að tala við svona marga menn sem eru eins nálægt því sem er að gerast í sjávarþorpunum og raunin er. Ég held þó að þær upplýsingar sem hér komu fram hjá hv. þingmanni séu í rauninni ekki frábrugðnar því sem við hin upplifum í samskiptum okkar við þetta fólk. Alla vega hvað mig varðar stendur þar allt heima frá því sl. sumar þegar við, ég og hæstv. iðnaðarráðherra, vorum í sambandi við fjölda sveitarstjórnarmanna þegar verið var að undirbúa mótvægisaðgerðirnar.

Hinn gríðarlega mikli þorskniðurskurður kemur einhvers staðar við, það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir þann afla sem ekki berst á land vegna þessara aðgerða. En það var metið nauðsynlegt. Talið var að til framtíðar litið væru hagsmunir okkar fólgnir í því að takast á við vandann núna frekar en miklu stærri vanda einhvern tíma seinna. Um það má auðvitað deila og um það hefur verið deilt og það er ekki nýtt en þetta er alla vega niðurstaðan í það skiptið.

Þær aðgerðir sem við fórum út í voru mjög fjölþættar og af þeirri stærðargráðu að ég vil ekki kalla það smáskammtalækningar. Ég held að það hafi aldrei verið farið út í eins viðamiklar aðgerðir og þær sem um ræðir, hinar svokölluðu mótvægisaðgerðir. Það nálgast að vera hálfur annar tugur milljarða sem mun fara í hin ýmsu verkefni á rúmlega tveggja ára tímabili.

Aðgerðirnar eru auðvitað fjölþættar og þær byggjast á því að bregðast við vandanum snöggt. Eins byggjast þær á því að leggja góðan grunn til framtíðar bæði í atvinnulífinu og eins í stoðkerfum, samgöngukerfinu sérstaklega. Ég á ekki von á öðru en að þessar aðgerðir muni skila sér mjög vel bæði til skamms og lengri tíma.

Við höfum síðan fylgst vel með þróuninni og því sem hefur verið að gerast í atvinnulífinu á þessum stöðum. Þar hefur þróunin auðvitað verið misjöfn en sem betur fer hafa ekki orðið nein gríðarlega stór áföll þó að auðvitað hafi á einstökum stöðum, og einstaka vinnustöðum sérstaklega, verið um einstaka áföll að ræða. Þegar við lítum til atvinnuleysisins er það hvergi orðið stórvægilegt. Þegar við lítum á það í heild er ekki mikið, reyndar lægra en það var fyrir ári síðan samkvæmt síðustu tölum.

Það er hins vegar alveg hárrétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að afleiðingarnar eru ekki að fullu komnar fram og væntanlega munu þær ekki koma fram að fullu fyrr en líður að lokum fiskveiðiársins. Við höfum nýlega farið yfir þessa stöðu, skoðað þessa þróun til þess að vera betur í stakk búin til að bregðast við ef eitthvað fer verr en við ætluðum. Við munum taka stöðuna fljótlega aftur og meta hvort eigi að bregðast við frekar á þeirri stundu eða hvort það eigi að bíða. Við höfum auðvitað verið að velta fyrir okkur ýmsum hlutum og það mun þá koma í ljós síðar hvað úr þeim verður. Of snemmt er að segja til um það en í meginatriðum eru það þessir sömu hlutir sem við höfum verið að vinna að og tala um að undanförnu.

Það má segja að við höfum sloppið fyrir horn hvað loðnuna varðar og það er vel. Við hefðum hugsanlega þurft að grípa fyrr til einhverra viðbótaraðgerða ef það hefði ekki verið. En maður veltir því hins vegar fyrir sér hvað verður ef uppi verður stórkostlegur vandi í öðrum atvinnugreinum og, eins og hv. þingmaður orðaði það, þegar atvinnuleysið flyst burt (Forseti hringir.) vegna þess að atvinnu er að fá annar staðar.