135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

staða sjávarplássa landsins.

[15:12]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ákaflega vel til fundið hjá hv. þm. Árna Johnsen að ræða við flokksbróður sinn og félaga úr Suðurkjördæmi, hæstv. fjármálaráðherra, um ástandið í sjávarbyggðunum og í raun má segja á landsbyggðinni almennt. Ég segi fyrir mitt leyti að ekki hefði ég á móti því þó að þessi mál væru rædd hérna að staðaldri einu sinni í viku fram til vors ef þess þarf til þess að hæstv. ríkisstjórn vakni af dvalanum.

Það er rétt að hafa það í huga að við erum að tala um aðstæður sjávarbyggðanna og sveitarfélaganna sem voru unnvörpum og að uppistöðu til í miklum þrengingum og fjárhagserfiðleikum áður en sérstök áföll urðu á sl. vori í formi niðurskurðar þorskafla og svo hefur ýmislegt annað bæst við. Það má heita að leitun sé að sveitarfélagi utan suðvesturhornsins sem ekki hefur átt í verulegum fjárhagsþrengingum undanfarin ár. Er þá Akureyri, langstærsta og öflugasta sveitarfélag landsbyggðarinnar, ekki undanskilin en þar hafa menn ekki verið ofsælir af því að koma saman fjárhagsáætlunum eða láta enda ná saman undanfarin ár. Þannig er nú staðan.

Hæstv. ríkisstjórn miklar sig hér af mótvægisaðgerðunum og kemur þeim upp í eitthvað á annan tug milljarða með því að leggja allt saman á þremur árum og bókfæra samgönguframkvæmdir sem hvort eð er voru að hluta til inni á áætlun á þessu tímabili. En er það mikið að á þremur árum eigi að fara eitthvað á annan tug milljarða í sérstakar jöfnunaraðgerðir þegar við höfum í huga tekjubrestinn og umfang hans sem leiðir af þorskaflasamdrættinum einum? Loðnuvertíðin verður mjög rýr og milljarðar eru að tapast þar út miðað við síðustu vertíð og var hún þó ekki beysin. Þetta kemur beint fram í formi minni tekna í hafnarsjóði, útsvarstekna til sveitarfélaganna o.s.frv.

Ég tek því undir það hjá málshefjanda að tími smáskammtalækninga er liðinn í þessum efnum. Það veitir ekki af (Forseti hringir.) að fá botn í það (Forseti hringir.) hvort endurskoðun mótvægisaðgerðanna — þessi þokukenndu áform hæstv. ríkisstjórnar sem ég hef ekki enn skilið — er raunverulega í gangi eða ekki.