135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

staða sjávarplássa landsins.

[15:26]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir að taka upp málefni sjávarbyggða á þinginu því að svo sannarlega er ekki vanþörf á því. Ég hef talað fyrir því á undanförnum árum að þegar þingmenn koma í pontu eigi þeir ekki að einbeita sér að því að tala niður ástandið eins og það er heldur að tala með uppbyggjandi hætti. Ég hef tamið mér það hingað til. Hins vegar verð ég að viðurkenna, hæstv. forseti, að þegar maður heyrir hæstv. ráðherra segja að engin stórvægileg áföll hafi dunið yfir landsbyggðina að undanförnu vekur það hjá mér dálítinn ugg hvort ríkisstjórnin sé raunverulega jarðtengd í þessum efnum þegar mörg hundruð störf hafa tapast úr sjávarbyggðum landsins á síðustu mánuðum og við horfum til þess að annað eins eða jafnvel verri hlutir geti gerst á næstu mánuðum og missirum. Við hljótum að setja þetta í samhengi við þær stórkostlegu mótvægisaðgerðir sem Samfylkingin og sjálfstæðismenn boðuðu síðastliðið sumar, upp á annan tug milljarða, sem hæstv. ráðherra talaði um hér. Inni í þeirri tölu eru m.a. Norðfjarðargöng sem ég hélt og stóð í þeirri trú að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hefðu ákveðið í tíð síðustu ríkisstjórnar að ráðist yrði í á árinu 2009 en Samfylkingin staglast á að um nýja ákvörðun sé að ræða að það eigi að bjóða þá framkvæmd út árið 2009. Ég nefni framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð sem (Gripið fram í.) samfylkingarmenn tala um sem mótvægisaðgerð, það var búið að ákveða það í tíð síðustu ríkisstjórnar. Núverandi ríkisstjórn er því að endurnýta fullt af fyrri (Gripið fram í.) loforðum og ákvörðunum fyrri ríkisstjórnar.

Ég vil að lokum segja það, hæstv. forseti, af því að Einar Már Sigurðarson er duglegur að halda fundi á Húsavík og tala um álver á Bakka við Húsavík, að hann ætti ræða við umhverfisráðherra sinn í ríkisstjórn Íslands sem hann á aðild að sem (Forseti hringir.) talar gegn þeirri framkvæmd og þó að Samfylkingin sé komin í stjórn mun hún ekki komast upp með að tala í tvær áttir í þessum efnum. (Forseti hringir.) Samfylkingin er á móti uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík. Ég hvet hv. þingmann til að hlusta á yfirlýsingar hæstv. umhverfisráðherra Þórunnar Sveinbjarnardóttur.