135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

staða sjávarplássa landsins.

[15:29]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Johnsen sérstaklega fyrir að vekja athygli á því að staða sjávarbyggða er nú lakari en hún hefur nokkru sinni verið. Eins og hann rakti í mjög góðri ræðu sinni áðan, og hann rakti við hverja hann hefði talað og í hvaða ferðalag hann hefði farið, þá er þessi staða vítt og breitt og vandinn ærinn. Af hverju stafar það? Það stafar af því að við erum búin að búa við ákveðið kerfi sem hv. þm. Árni Johnsen og sá hæstv. ráðherra sem er til andsvara bera alla ábyrgð á. Það er vegna gjafakvótakerfisins, það er vegna þeirra takmarkana sem hafa verið sett, það er vegna þess að kerfið hefur ekki náð neinum árangri. Í staðinn fyrir að stuðla að aukningu á veiðum, þá eru þær takmarkaðar og dregið úr þeim frá ári til árs. (Gripið fram í.) Það er hinn raunverulegi vandi og ég gat ekki heyrt annað en hv. þm. Karl V. Matthíasson tæki undir með okkur frjálslyndum hvað það varðaði að leyfa ætti auknar handfæraveiðar, það ætti að leyfa þær vistvænu veiðar sem við höfum talað um og barist fyrir.

Stóri vandinn er gjafakvótakerfið sem komið hefur verið á og viðhaldið fyrst og fremst fyrir atbeina Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Og Framsóknarflokksins.) Allt í lagi, það er sama hvaðan vont kemur. En það sem er meginatriði til varnar sjávarbyggðum er að heimila vistvænar veiðar, að taka ekki lífsbjörgina frá fólkinu eins og Sjálfstæðisflokkurinn virðist standa í og ætla sér að halda við. Það er meginatriðið að fólkið fái og geti skapað sér lífvænlega framtíð. Það er höfuðatriðið. En ég ákæri þá sem nú standa gegn því að mannréttindi séu virt og að viðhaldið sé löglausu gjafakvótakerfi. Það er undirrót þess vanda sem við er að glíma, hv. þm. Árni Johnsen.