135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

staða sjávarplássa landsins.

[15:31]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hafa orðið um þetta mál og sérstaklega þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þær væntingar sem hann lagði fram í svari sínu.

Það skiptir máli að taka á. Það eru menn sammála um. Það skiptir máli að horfast í augu við vandann sem er að dynja yfir og við eigum að vera á undan en ekki eftir. Það er skoðun mín að það þurfi stórar tölur í viðbót til þess að takast á við þann vanda sem blasir við. Ekki tugmilljónir heldur milljarð. Að minnsta kosti milljarð. Tugi milljarða, ætlaði ég að segja. Það held ég að sé raunhæft til að bregðast við þeim vanda sem blasir við.

Sem dæmi um mótvægisaðgerðir fyrir Norðurland eystra þá var um nokkra tugi milljóna að ræða. Það er enginn peningur. Það er smáskammtalækning. Þannig verða menn að vinna sig út úr því og horfast í augu við það og takast á við um allt land. Það hefur verið yddað að því að það væri ómögulegt að við þingmenn Suðurkjördæmis ræddum þetta mál hér í Alþingi. Auðvitað ræðum við málin í Alþingi. Þingmenn Suðurkjördæmis hafa alltaf hugsað út fyrir sitt kjördæmi og hugsað um velferð alls landsins. Þetta er spurning um velferð alls landsins, að bregðast við.

Það var gott að heyra hæstv. fjármálaráðherra segja að þeir standi vaktina. Þeir standa vaktina (Gripið fram í.) og það er ýmislegt í farteskinu. Það er engin ástæða til að gera lítið úr því, menn horfast í augu við að það er að ganga í garð erfitt tímabil og við því þarf að bregðast. Það þarf að hugsa stórt, standa við bak sjávarútvegsins og þá munu hremmingarnar ganga yfir, eins og Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum orðaði það.

Þetta snýst líka um ákveðna hluti, (Forseti hringir.) t.d. það sem bæjarstjórinn í Skagafirði, Guðmundur Gunnlaugsson, sagði, að þeir (Forseti hringir.) væru harðir á því að það væru engin haldbær rök fyrir niðurskurðartillögum Hafrannsóknastofnunar. Það spilar víða inn í og (Forseti hringir.) þannig þarf að horfa á þetta mál frá mörgum hliðum og vonandi (Forseti hringir.) standa menn saman um það.