135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

VES-þingið 2007.

455. mál
[15:36]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Á þskj. 725 liggur fyrir ársskýrsla Íslandsdeildar þings Vestur-Evrópusambandsins og mun ég í stuttu máli gefa þingheimi kynningu á helstu málum í brennidepli innan sambandsins á liðnu ári. Ársskýrsla Íslandsdeildar fyrir árið 2007 gerir störfum þingmannanefndarinnar ítarleg skil auk skipan Íslandsdeildar. Ég mun því aðeins stikla á stóru, en vísa að öðru leyti í skýrsluna sem mælt er fyrir.

Vestur-Evrópusambandið eða VES er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja og var stofnað með Brussel-sáttmálanum árið 1948. VES-þingið var stofnað árið 1954 og kom fyrst saman ári síðar þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES.

VES-þingið sitja um 400 þingmenn frá 39 þjóðþingum og fer fjöldi þingmanna eftir íbúafjölda viðkomandi aðildarríkis. Ríki, sem eiga aðild að NATO og/eða ESB, geta átt aðild að VES. Alls eiga 28 ríki aðild að VES með mismunandi hætti og 11 ríki til viðbótar hafa aðgang að þinginu. Tíu ríki eiga það sameiginlegt að vera bæði NATO- og ESB-ríki og eru með fulla aðild að VES-þinginu en Ísland, Noregur og Tyrkland, sem eiga aðild að NATO en ekki ESB, eru með aukaaðild. VES-þingið hefur aðsetur í París og eru tveir þingfundir haldnir árlega, oftast í júní og desember. Íslandsdeild tók þátt í báðum þingfundum árið 2007.

Hlutverk þingsins er að fjalla um málefni er falla undir starfssvið VES, þ.e. öryggis- og varnarmál álfunnar. Þingið fjallar auk þess um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það fjallar um málefni sem eru efst á baugi í nefndum þingsins, ályktar um skýrslur nefnda, gerir tillögur til ráðherraráðs VES og beinir fyrirspurnum til þess.

Frú forseti. Í umræðum VES-þingsins árið 2007 var að vanda lögð megináhersla á sameiginleg öryggis- og varnarmál álfunnar. Af þeim fjölmörgu málum sem fjallað var um á árinu má nefna þrjú málefni sem voru sérstaklega í brennidepli.

Í fyrsta lagi var ítarlega fjallað um skýrslu stjórnmálanefndar þingsins um öryggi á norðurslóðum og var það í fyrsta sinn sem skýrsla um loftslagsbreytingar var tekin til umfjöllunar á þinginu. Þess ber að geta að norðurslóðir og norðurskautssvæðið hafa fengið aukið vægi í umræðunni um öryggismál, m.a. sökum ríkra orkuauðlinda og möguleika á nýjum siglingaleiðum með bráðnun hafíss.

Lykilatriði skýrslunnar eru loftslagsbreytingar og bætt orkuöryggi, auk þess sem hún fjallar um mögulegar afleiðingar uppbyggingar herflota Rússa á svæðinu. Skýrsluhöfundar ræddu um mikilvægi þess að sjónum væri beint að norðurskautinu þar sem loftslagsbreytingar sem þar verða geta haft áhrif víða. Í því samhengi var rætt um að bráðnun hafíss geti opnað nýjar leiðir fyrir hernaðarumsvif og flutninga á olíu og gasi, sérstaklega um Barentshaf, Norðurskautið búi yfir miklum olíu- og gasauðlindum og geti orðið framtíðarorkusvæði fyrir Evrópu. Því væri afar mikilvægt að móta sameiginlega stefnu um verndun loftslags og orkuöryggi, með áherslu á að tryggja að norðurskautið verði áfram skilgreint sem átakalaust svæði í heiminum.

Annað mál sem fékk mikla athygli á árinu var umræða um athæfi hryðjuverkamanna á landamærum Tyrklands og Íraks. Miklar umræður sköpuðust um alvarleika ástandsins og aðgerðir Verkamannaflokks Kúrda (PKK) sem hefur bækistöðvar í fjallgörðum Íraks við landamæri Tyrklands.

Í þriðja lagi varð áframhald á lífseigri umræðu um framtíðarhorfur VES-þingsins og um stofnanatengsl Vestur-Evrópusambandsins við Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið en sem kunnugt er hafa miklar og örar breytingar átt sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu síðustu ár. Eitt helsta baráttumál VES-þingsins undanfarin ár og missiri hefur verið aukin þátttaka og hlutur þjóðþinga í lýðræðislegu eftirliti með öryggis- og varnarmálastefnu ESB.

Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingfundum VES á árinu má nefna umræðu um orrustufylki Evrópusambandsins og skuldbindingar Evrópu í Afganistan, stöðugleika og öryggi í Evrópu, Evrópusambandið og öryggi í Suðaustur-Evrópu, starfsemi evrópska landgönguliðsins erlendis, takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna, friðargæsluverkefni í Mið-Austurlöndum og mögulega samvinnu við Kína um varnarmál.

Einnig voru kynntar áherslur og forgangsverkefni Þýskalands og Portúgals sem fóru með formennsku í Evrópusambandinu og Vestur-Evrópusambandinu á árinu 2007.

Þá ávarpaði forseti þingsins, Jean-Pierre Masseret, þingið og stýrði umræðum. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á mikilvægi þess að viðhalda og varðveita þann umræðuvettvang sem starfræktur hefur verið milli þinga aðildarríkjanna og að tryggja lýðræðislega rannsókn og skoðanaskipti um þróun stefnu í öryggis- og varnarmálum álfunnar.

Frú forseti. Þrátt fyrir umfangsmiklar stofnana- og skipulagsbreytingar í Evrópu á undanförnum árum er VES-þingið afar mikilvægur vettvangur sem gefur þjóðkjörnum þingmönnum Evrópuríkja færi á að fylgjast með, skiptast á skoðunum og ræða sameiginleg öryggis- og varnarmál álfunnar.

Eins og áður sagði er gerð nákvæm grein fyrir því sem fram fór á fundum nefndarinnar í skýrslu þeirri sem hér er mælt fyrir og vísa ég til hennar varðandi frekari upplýsingar um störf nefndarinnar. Ég vil að lokum, þakka Íslandsdeildarmönnum gott samstarf og að svo mæltu læt ég lokið umfjöllun minni um skýrslu Íslandsdeildar þings Vestur-Evrópusambandsins fyrir árið 2007.