135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

Evrópuráðsþingið 2007.

456. mál
[15:42]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Hæstv. forseti. Ársskýrsla Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, þar sem greint er frá störfum Íslandsdeildarinnar og Evrópuráðsþingsins á starfsárinu 2007, er að finna í þskj. 726. Ég vil fylgja þessari skýrslu úr hlaði með nokkrum orðum en vil þó byrja á því að geta þess að ný Íslandsdeild tók við af þeirri sem fyrir var eftir kosningarnar 31. maí sl. en hún er skipuð auk mín þeim Ellerti B. Schram og Steingrími J. Sigfússyni. Aðalmenn í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins fyrri hluta síðasta árs voru þau Birgir Ármannsson, Margrét Frímannsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson.

Hæstv. forseti. Evrópuráðið var stofnað árið 1949 af níu Vestur-Evrópuríkjum. Ísland gerðist aðildarríki ári síðar, árið 1950. Í dag eru aðildarríkin 47. Í upphafi vil ég víkja aðeins að hlutverki Evrópuráðsins. Hlutverk ráðsins er að standa vörð um þau þrjú grunngildi sem þar eru í heiðri, mannréttindi, lýðræði og meginreglur réttarríkisins. Einnig að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið fyrir sig samningum og bindandi fjölþjóðasáttmálum á ýmsum sviðum og samvinnu við aðrar alþjóðastofnanir og samtök.

Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í allri álfunni. Ber mannréttindasáttmála Evrópu og félagsmálasáttmála Evrópu þar hæst. Sáttmálar Evrópuráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræðisfyrirkomulagi og réttarríki. Á þetta hefur talsvert reynt undanfarna tvo áratugi í kjölfar þeirra umbrota sem áttu sér stað eftir fall Berlínarmúrsins. Með breyttri heimsmynd Evrópu eftir 1989 hefur orðið ríflega 100% fjölgun ríkja í ráðinu. Alls hafa síðan þá 24 nýfrjáls ríki Mið- og Austur-Evrópu bæst í hópinn og skuldbundið sig til að standa vörð um grunngildi Evrópuráðsins.

Fyrir tæpu ári, 11. maí 2007, varð Svartfjallaland 47. aðildarríki Evrópuráðsins. Aðild Svartfjallalands er dæmi um hvernig Evrópuráðið beitir sér í því skyni að efla lýðræðisþróun og virðingu fyrir mannréttindum en ein meginforsenda aðildar var samþykki stjórnvalda Svartfjallalands um að hafa, og þá að tillögu Evrópuráðsins, sjö meginreglur í anda lýðræði að leiðarljósi við gerð stjórnarskrár sem þá var í smíðum.

Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarlanda Evrópuráðsins. Þingið gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi ráðsins sem nokkurs konar lýðræðislegur og fjölþjóðlegur hugmyndabanki. Á þinginu koma saman fjórum sinnum á ári, og þá í viku í senn, 318 fulltrúar og eiga jafnmargir þingmenn sæti til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins, þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði, er fjöldi fulltrúa á þinginu í hlutfalli við stærð þjóða. Ísland hefur, svo dæmi sé tekið, þrjá aðalmenn og jafnmarga til vara á meðan Rússland er með 18 þingmenn í sinni landsdeild og jafnmarga til vara

Mikilvægi þingsins felst einkum í þrennu. Í fyrsta lagi að eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum og tilmælum til ráðherranefndarinnar um aðgerðir. Til að mynda var Sáttmáli Evrópuráðsins, um aðgerðir gegn mansali, gerður að frumkvæði þingsins en sáttmálinn tók gildi 1. febrúar sl. Í öðru lagi hefur Evrópuráðsþingið eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga aðildarlandanna og þrýstir á um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á. Að lokum er Evrópuráðsþingið mikilvægur vettvangur þar sem þingmenn miðla og veita viðtöku gildum Evrópuráðsins og efla tengsl á milli þjóðþinga.

Starfsemi Evrópuráðsþingsins var víðfeðm á árinu 2007 sem endranær eins og þeir fjölmörgu málaflokkar, sem voru til umræðu á þinginu og í nefndum þess, eru til vitnis um, en alls starfa á þinginu 5 flokkahópar, 10 málefnanefndir og 24 aukanefndir. Einnig ávörpuðu þingið fjölmargir þjóðhöfðingjar og aðrir leiðtogar.

Hér er ekki ráðrúm til að fjalla ítarlega um einstaka fundi Evrópuráðsþingsins og öll þau mál sem þar voru tekin til umræðu. Vísa ég í því samhengi til umfjöllunar í skýrslunni sem lögð hefur verið fyrir þingið. Það eru þó nokkur mál, sem komu til kasta Evrópuráðsþingsins á síðasta ári, sem ég vil nefna sérstaklega. Þau tengjast öll, hvert með sínum hætti, þessum þremur grunngildum Evrópuráðsins sem ég nefndi áður, mannréttindum, lýðræði og reglum réttarríkisins.

Í fyrsta lagi varð áframhald á umfjöllun um fangaflutninga og leynileg fangelsi í Evrópu á vegum bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Svissneski öldungadeildarþingmaðurinn og fyrrum ríkissaksóknari Dick Marty hefur stjórnað rannsókninni innan þeirrar nefndar sem hefur unnið að henni frá upphafi eða síðan í desember 2005. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og annars staðar hafa einstaklingar verið handteknir að frumkvæði bandarísku leyniþjónustunnar án dóms og laga og verið fluttir með borgaralegum flugvélum milli Evrópulanda eða til ríkja utan álfunnar. Heimildamynd sem sýnd var í ríkissjónvarpinu mánudaginn 25. febrúar sl. fjallaði m.a. um málið með vísan til Danmerkur, Grænlands og Íslands. Ég vil taka það sérstaklega fram í þessu sambandi að fyrirspurn um upplýsingar sem óskað var eftir vegna rannsóknar Evrópuráðsþingsins um flugferðir innan lofthelgi Íslands á tímabilinu frá september 2001 til desember 2005 hefur verið svarað.

Í skýrslu sem Dick Marty lagði fram í Evrópuráðsþinginu í júní sl. voru leiddar sterkar líkur að því að meintum hryðjuverkamönnum hafi verið haldið í leynifangelsum í Póllandi og Rúmeníu og jafnvel víðar á sama tímabili. Og að þessar handtökur og fangaflutningar hafi farið fram með vitund eða samvinnu stjórnvalda í viðkomandi löndum.

Til upplýsingar hér á Alþingi þá heldur rannsókn á vegum nefndarinnar áfram. Í janúar sl. lagði Dick Marty fram skýrslu í Evrópuráðsþinginu um gerð og réttarstöðu þeirra sem eru á svörtum listum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins sem heimila refsiaðgerðir gegn einstaklingum og hópum sem taldir eru vera viðriðnir hryðjuverkastarfsemi. Mörgu þykir ábótavant í sambandi við gerð listanna og réttarstöðu þeirra sem á honum eru.

Hæstv. forseti. Rannsókn Evrópuráðsþingsins er skýrt dæmi um frumkvæði og framlag þess í að standa vörð um grundvallarmannréttindi og meginreglur réttarríkisins, ekki síst með því að benda á brotalamir í þeim efnum og leiðir til úrlausnar.

Annað mál, sem einnig var mikið í umræðunni á starfsárinu, var hlutverk og fjárhagur Evrópuráðsþingsins annars vegar og stofnun Evrópusambandsins á sviði mannréttindamála, svokölluð Stofnun ESB um grundvallarréttindi. Stofnun ESB, sem tók til starfa í Vínarborg í mars í fyrra, er reist á grunni miðstöðvar ESB gegn kynþáttahatri sem starfað hefur í Vín um árabil. Það er jákvætt að standa vörð um mannréttindi en þingmenn á Evrópuráðsþinginu hafa hins vegar lýst áhyggjum sínum af því að með stofnuninni sé ESB að seilast inn á kjarnastarfsemi Evrópuráðsins á sviði mannréttinda. Það kalli aftur á móti á tvíverknað og samkeppni um tilgang og verkefni og ekki síst fjármagn en öll 27 aðildarríki ESB eiga jafnframt aðild að Evrópuráðinu. Vert er að geta þess í þessari umræðu að hin nýja stofnun ESB fékk miklar fjárveitingar í samanburði við Evrópuráðið og alla starfsemi þess, þ.m.t. Evrópuráðsþingið og Mannréttindadómstóll Evrópu. Sú staðreynd hefur gert það að verkum að ESB hefur verið gagnrýnt af sumum fyrir að grafa undan Evrópuráðinu. Þetta atriði hefur verið umdeilt en hefur leitt til þess að Evrópuráðið og Evrópusambandið gerðu með sér samning um verkaskiptingu í maí sl. þar sem gert er ráð fyrir að stofnun ESB einbeiti sér að þeim sviðum mannréttindamála, sem falla undir sameiginlega löggjöf Evrópusambandsins, á meðan Evrópuráðið hafi aðra þætti með höndum. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að Evrópuráðið hefur allt frá upphafi verið sameiginlegur vettvangur innan Evrópu til þess að standa vörð um mannréttindi og lýðræði í álfunni.

Hæstv. forseti. Í þriðja lagi var mikið rætt um alvarlega stöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Dómstóllinn hefur fyrir löngu sannað gildi sitt í því að standa vörð um grundvallarmannréttindi hinna 800 milljón þeirra ríkja sem aðild eiga að Evrópuráðinu, ekki síst í löndum sem eru á vegferð sinni í átt til lýðræðis og réttarríkisins. Málum sem hafa komið inn á borð dómstólsins hefur fjölgað mjög mikið samhliða fjölgun aðildarlanda eftir fall Sovétríkjanna, en eins og fram kom áður hafa alls 24 ríki bæst við síðan 1989. Dómstóllinn hefur átt í vanda við að sinna öllum þeim málum sem bíða afgreiðslu hans, m.a. vegna fjárskorts. Reynt hefur verið að leiðrétta fjárhagsvanda Mannréttindadómstóls Evrópu, m.a. með því að draga úr framlögum til starfsemi þingsins. Auk fjárhagsvanda dómstólsins hafa nauðsynlegar endurbætur á starfsemi hans strandað á fullgildingu neðri deildar rússneska þingsins, dúmunnar, á viðauka 14 við Mannréttindasáttmála Evrópu, sem á sinn þátt í því að flöskuháls mála hefur orðið til hjá dómstólnum en alls bíða um 90 þúsund mál afgreiðslu hans sem um 40 þúsund einstaklingar standa á bak við.

Hæstv. forseti. Staða mála hjá dómstólnum þykir alvarleg og er það skoðun mín að stuðningur aðildarríkja við starfsemi Evrópuráðsþingsins og þar með dómstólsins skipti afar miklu máli við lýðræðisuppbyggingu í álfunni. Nauðsynlegt er að standa vörð um það mikilvæga hlutverk sem Evrópuráðið og dómstóllinn hefur við aðhald á sviði mannréttinda og lýðræðis í Evrópu.

Að lokum vil ég nefna sérstaklega með vísan í mikilvægt starf Evrópuráðsþingsins að það er orðið fyrirmynd sambærilegra stofnana í öðrum heimsálfum. Má þar nefna þingmannasamtök Asíulanda en til stendur að auka samskipti þessara tveggja stofnana í framtíðinni. Þetta aukna samstarf er einnig dæmi um það hvernig Evrópuráðsþingið hefur undanfarið beint sjónum sínum í auknum mæli að stöðu mannréttindamála og lýðræðis á stöðum og svæðum utan ráðsins.

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur verið lögð ríkari áhersla á alþjóðlegt samstarf af hálfu okkar Íslendinga en áður. Segja má að öllum megi vera ljóst að það skiptir verulegu máli vegna þeirra breytinga sem átt hafa sér stað á alþjóðlegum vettvangi og í samfélagi þjóðanna. Í því sambandi vil ég benda á að þingið tekur til afgreiðslu mikilvæg mál sem snerta Ísland með beinum hætti eins og nýsamþykktar ályktanir þingsins um áhrif loftslagsbreytinga og umhverfisverndar á norðurslóðum eru dæmi um. Í þeim tilvikum er mikilvægt að Ísland sé vakandi og leggi sitt af mörkum eins og Íslandsdeildin gerði með fulltingi norskra þingmanna nú í janúar. Það er jafnframt skoðun mín að Ísland eigi ekki eingöngu að sinna hagsmunagæslu, ef svo má að orði komast, heldur hafi einnig skyldum að gegna í því að miðla til annarra af reynslu sinni af samfélagslegri uppbygginu og lýðræðismenningu, þar með talið á sviði orku- og jafnréttismála. Í því samhengi, með leyfi hæstv. forseta, vil ég nota tækifærið og geta þess að Steingrímur J. Sigfússon var valinn formaður jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins í janúar sl. og er það í fyrsta sinn sem karlmaður gegnir þeirri formennsku síðan nefndin var stofnuð árið 1989. Þykir mörgum mikið til koma stöðu jafnréttismála hérlendis og nefni ég sem dæmi feðraorlofið sem mörgum þykir til fyrirmyndar. Það verður gaman að fylgjast með Steingrími í þessu nýja hlutverki og ég hlakka til að gera það.

Hæstv. forseti. Fundir nefnda Evrópuráðsþingsins eru fjölmargir á hverju ári auk þess sem þingið tekur þátt í kosningaeftirliti. Nefndirnar koma saman til funda í tengslum við þing Evrópuráðsþingsins í Strassborg en auk þess efna nefndirnar reglulega til funda utan þess tíma sem þingið sjálft er að störfum.

Íslandsdeildin hefur tekið virkan þátt í störfum Evrópuráðsþingsins og þingmenn sóttu héðan nefndafundi í þeim nefndum sem þeir eiga aðild að. Það liggur hins vegar í augum uppi að sökum fámennis og anna heima fyrir eiga þingmenn í Íslandsdeildinni þess ekki kost að sækja alla þá nefndafundi sem boðið er upp á. Ég rifja það upp að fjöldi í einstökum landsdeildum ræðst að nokkru leyti af stærð ríkja þannig að við Íslendingar erum fáliðuð á þessum vettvangi og verðum að dreifa okkur víða en jafnframt forgangsraða eðli málsins samkvæmt. Í skýrslunni er að finna greinargóða lýsingu á þinginu og þátttöku Íslandsdeildar.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka Íslandsdeildarmönnum gott samstarf á þessum mikilvæga vettvangi sem og starfsfólki fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu sem hefur verið þingmannanefndinni innan handar um margvíslega hluti. Þá þakka ég einnig Magneu Marinósdóttur, starfsmanni þingsins, sem hefur verið okkur innan handar, ég þakka henni kærlega fyrir góð störf.