135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

Evrópuráðsþingið 2007.

456. mál
[15:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka formanni okkar fyrir góða framsögu og vil lýsa ánægju minni með starf Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins. Ég tók sæti þar síðastliðið vor í kjölfar breyttrar verkaskiptingar eftir kosningar og ég verð að segja að það hefur verið ánægjuleg upplifun að setja sig inn í starf Evrópuráðsþingsins og Evrópuráðsins og margt hefur komið manni þar fremur ánægjulega á óvart. Ég verð að segja að þótt ég hafi að sjálfsögðu þekkt til starfa þingsins í gegnum tíðina þá hefur maður kannski á köflum haft þá tilfinningu að það væri að fjara undan þessu starfi og það hefði ekki sama gildi í nútímanum og áður var og þá auðvitað og ekki síst vegna tilkomu Evrópusambandsins og stækkunar þess og að þungamiðja evrópsks samstarfs væri að færast þangað. En það má alveg færa rök fyrir hinu gagnstæða að hluta til, að mikilvægi Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins sé síst minna nú en áður og það tengist m.a. breytingunum miklu sem orðið hafa á stjórnmálasviðinu í Evrópu og þeirri staðreynd að nú er Evrópuráðið orðið helstu heildarsamtök Evrópuríkja. Þar með hefur þessi gamalgróna evrópska stofnun og þetta samstarf sannað gildi sitt og sýnt mikilvægi sitt m.a. í því að þar er til staðar vettvangur þar sem nær öll Evrópuríki geta unnið saman óháð því hvort þau eru aðilar að Evrópusambandinu sem slíku eða á hvern hátt þau tengjast verkefnum þess.

Kjarni starfa Evrópuráðsins er enn sem fyrr óbreyttur og fullgildur og sannar gildi sitt og mikilvægi með reglubundnum hætti. Ég vil þar sérstaklega nefna mannréttindamálin og þau verkefni sem m.a. var vikið að í framsöguræðu formanns áðan og snerta t.d. mannréttindin eins og þau rekast á við aðgerðir í baráttunni gegn hryðjuverkum eins og það er kallað og ýmislegt sem breyst hefur vegna aðstæðna í alþjóðamálum okkar að því leyti til. Það er enginn vafi á því að þótt ekki kæmi annað til en hið merka starf á vegum laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsins þar sem m.a. hefur farið fram fyrsta fjölþjóðarannsóknin, ef hægt er að kalla það svo, á mannréttindabrotum sem tengjast handtöku fólks, fangelsun og flutningum í skjóli þess að um nauðsynlegar aðgerðir í baráttu gegn hryðjuverkum sé að ræða, þá þyrfti í raun ekki annað til. Það starf sem svissneski þingmaðurinn Dick Marty hefur leitt þar og gefið hefur af sér skýrslur og mikla umfjöllun og mikla umræðu hefur verið ómetanlegt. Það hefur skipt sköpum fyrir það starf að það var unnið á vettvangi og í skjóli af öflugri og virtri stofnun eins og Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið er, og þær óþægilegu staðreyndir að mörgu leyti sem m.a. mörg aðildarríki Evrópuráðsins og önnur vestræn samstarfslönd eins og Bandaríkin, sem reyndar eiga áheyrnaraðild að Evrópuráðinu, hafa þurft að horfast í augu við í ljósi upplýsinga sem þar hafa komið fram verða ekki umflúnar. Menn verða að horfast í augu við það að þarna hafa orðið mistök, að þarna hafa átt sér stað umfangsmikil og alvarleg mannréttindabrot og á því verður að taka.

Sama má segja um þá vinnu sem nú hefur verið unnið að og tengist svonefndri svartlistun eða skráningu á lista yfir meinta eða grunaða hryðjuverkamenn eða fólk sem tengist slíku á einhvern hátt og lendir inni á þeim listum á allt of frjálslegum forsendum án þess að mál þeirra hafi verið rannsökuð og sætir við það miklum takmörkunum á persónufrelsi sínu, ferðafrelsi, fjárhagslegu sjálfstæði o.s.frv., og á í miklum erfiðleikum með að fá sig afskráð eða numið af þeim listum og þarf sjálft að hafa fyrir því að berjast fyrir slíku. Sambúð og samþætting þessara aðgerða við grunngildi mannréttinda, friðhelgi einkalífs og persónufrelsi er viðvarandi viðfangsefni, er reyndar mjög brýnt viðfangsefni um þessar mundir, og því er ómetanlegt að eiga aðila til slíkrar baráttu og að slík vinna geti farið fram á vettvangi eins og Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið er.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á það að Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið ekki síður og þá kannski einkum Evrópuráðsþingið er mjög dýrmætur vettvangur vegna þess að þar koma öll Evrópuríkin saman og þar er til að mynda einhver mikilvægasta brú samskipta við vaxandi stórveldi sem Rússland er á nýjan leik í austanverðri Evrópu sem ekki væri til staðar annars staðar með sambærilegum hætti ef ekki nyti Evrópuráðsþingsins við. Umsóknir nýfrjálsra ríkja í austanverðri Evrópu sem hafa lagt metnað sinn í að fá fullgilda aðild að Evrópuráðinu hafa verið meðhöndlaðar þannig að tækifærið hefur verið notað, ef svo má að orði komast, til að reyna að setja skilmála og þrýsta á viðkomandi ríki að grípa til ráðstafana og uppfylla skilyrði þannig að þau geti orðið með sómasamlegum hætti fullgildir aðilar að Evrópuráðinu. Menn rekur sjálfsagt minni til þess að á sínum tíma var það umtalsvert rætt hvort Rússland hefði komið sínum málum í þannig horf að það væri ásættanlegt að það yrði aðili að Evrópuráðinu og stofnunum þess. Það er enginn vafi á því í mínum huga að það var rétt ákvörðun að fallast á inngöngu Rússa og þarna er dýrmætur vettvangur til þess að rækta við þá samskipti og reyna að hafa áhrif á þróun mála þar til góðs. Sama gildir auðvitað um þau ríki sem nýlega hafa fengið inngöngu og vonandi í framhaldinu einnig t.d. Hvíta-Rússland sem enn þykir ekki uppfylla inngönguskilyrði en gerir það vonandi fyrr en síðar og þá skapast tækifæri og aðstæður til að reyna að þrýsta á um umbætur í því landi í átt til aukinna mannréttinda, lýðræðis og annarra þeirra hluta sem við viljum gera kröfur um að séu í heiðri hafðar til þess að ríki geti talið sig til hóps lýðræðis- og réttarríkja.

Eins og fram kom áðan hjá formanni tók sá sem hér stendur að sér formennsku í einni af nefndum Evrópuráðs í janúarmánuði sl. Það er jafnréttisnefnd ráðsins, yngsta nefndin, sú sem í raun heitir nefnd um jöfn tækifæri kvenna og karla og var sett á fót fyrir 10 árum síðan sem liður í aukinni meðvitund um gildi og mikilvægi jafnréttisbaráttunnar í öllum sínum víddum. Ég held að starf þeirrar nefndar hafi margsannað tilvist sína. Þar hefur verið tekist á við ýmis áleitin og erfið mál eins og baráttu gegn vændi og mansali og það hefur leitt af sér evrópskan sáttmála sem nú hefur öðlast gildi þar sem tilskilinn fjöldi ríkja hefur fullgilt hann. Annað stórt verkefni sem verið hefur á ábyrgð þeirrar nefndar og er enn í gangi er sérstakt átak eða herferð í baráttu við ofbeldi gegn konum eða heimilisofbeldi sem beinist að konum. Þar hefur verið í gangi tveggja ára verkefni sem hófst á Spáni og verður lokið nú í lok aprílmánaðar í Vínarborg og hefði gjarnan og að ósekju mátt fá meiri athygli á Íslandi en aðgerðin hefur heppnast vel og umtalsverð athygli verið á þeim verkefnum sem þar hafa verið unnin í ýmsum nálægum löndum. Það er fagnaðarefni að einmitt nú hafa Sameinuðu þjóðirnar ákveðið að hefja hliðstætt átak og einnig í þessu tilviki má segja að Evrópuráðið eða Evrópuráðsþingið hafi markað brautina og Sameinuðu þjóðirnar fylgi núna með sínu heimsátaki í kjölfar þess sem Evrópuráðið hefur þegar gert.

Eitt dæmi um viðfangsefni sem þarna er nú í gangi eru drög að ályktun sem eru til vinnslu um rétt kvenna til öruggra og löglegra fóstureyðinga. Þar er ekki lengra gengið en svo að konur skulu eiga rétt á löglegum og öruggum fóstureyðingum ef það stofnar heilsu þeirra í voða að ljúka meðgöngu eða ef um nauðgun hefur verið að ræða, en slík viðfangsefni eru engu að síður mjög viðkvæm í ljósi mismunandi trúarbragða, menningar og hefða aðildarríkjanna.