135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

Alþjóðaþingmannasambandið 2007.

462. mál
[16:31]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Á þskj. 735 liggur fyrir ársskýrsla Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins og mun ég í stuttu máli gera grein fyrir helstu málum sem hafa verið í brennidepli innan sambandsins á liðnu ári.

Ársskýrsla Íslandsdeildar fyrir árið 2007 gerir störfum þingmannanefndar ítarleg skil auk skipan Íslandsdeildar en í henni eiga sæti sú sem hér stendur, Ásta Möller formaður, Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður deildarinnar og Þuríður Backman. Varamenn eru hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Lúðvík Bergvinsson og Atli Gíslason.

IPU er erlend skammstöfun og stendur fyrir Interparliamentary Union, Alþjóðaþingmannasambandið. Aðild að IPU eiga nú 147 þing en aukaaðilar að sambandinu eiga sjö svæðisbundin þingmannasambönd. Hlutverk IPU er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllu heimshornum og hlúa að samstarfi þeirra. IPU fjallar um alþjóðamál og samþykkir ályktanir um þau og vinnur að framgangi mannréttindamála sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoða við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra.

IPU heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins, og eitt minna þing að hausti sem er haldið í Genf nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið nokkrar alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oftast um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Oft eru þessar ráðstefnur svæðisbundnar. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.

Af þeim mörgu málum sem fjallað er um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins á árinu 2007 vil ég leggja áherslu á nokkur atriði en þau tengjast öll markmiðum sambandsins sem er að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Fyrst vil ég nefna breytingar sem orðið hafa á skipulagi funda IPU en á vorþingi 2007 var fyrirkomulagi haustþinga sambandsins breytt í þá veru að lögð verði áhersla á störf nýrrar nefndar IPU um málefni Sameinuðu þjóðanna. Haustfundir fastanefnda IPU fá í þess stað minna vægi og leggja áherslu á opnar umræður og samræður við sérfræðinga til undirbúnings umræðuefna fastanefnda IPU á komandi vorþingum. Þá er einnig ákveðið að lengja fundi ráðsins á haustþingum, m.a. til að auka áhrif þingmanna á ákvarðanir um starfsemi IPU.

Í öðru lagi er umræða um friðsamlega sambúð ólíkra trúarbragða en sjaldan hefur verið meiri þörf á umræðum og skoðanaskiptum milli menningarheima og nú. Fyrsta fastanefnd IPU um frið og alþjóðleg öryggismál lagði fram skýrslu um málið og var ályktun samþykkt á grundvelli hennar. Segja má að IPU sé eini vettvangurinn þar sem þingmenn frá nær öllum ríkjum heims geta rætt saman, skipst á skoðunum og reynt að ná sameiginlegri niðurstöðu um málefni. Á slíkum fundum takast kynni með fólki frá ólíkum þingum og mikilsverð tækifæri skapast til að efla tengsl og samvinnu við þing frá öðrum menningarsvæðum.

Í þriðja lagi vil ég nefna starf IPU til að efla lýðræði. Mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert löggjafarstarf fram. Þingmenn frá slíkum þingum kynnast lýðræðislegum vinnubrögðum á þingum IPU en jafnframt vinnur sambandið mjög mikilvægt starf í þessa veru milli þinga. Námskeið eru haldin um ýmsa þætti þingstarfsins fyrir þing sem eru að feta sig áfram á lýðræðisbrautinni, stundum í samstarfi við viðeigandi stofnun Sameinuðu þjóðanna eða aðra alþjóðastofnun. Sem dæmi um námskeið sem haldin voru á árinu 2007 má nefna námsstefnu fyrir asísk þjóðþing um sjálfbæra þróun sem haldin var í Laos og svæðisbundin málþing um úrræði þinga á sviðum barnaverndar í Suðaustur-Asíu sem var haldið í Pakistan. IPU veitir jafnframt einstökum þingum tæknilega aðstoð og þjálfun.

Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum IPU árið 2007 má nefna atvinnusköpun og atvinnuöryggi á tímum hnattvæðingar, umræðu um hvernig stuðla megi að fjölbreytni og jafnrétti með sameiginlegum lýðræðis- og kosningastöðlum og brýna nauðsyn þess að stöðva víðtæk mannréttindabrot í Mjanmar og koma aftur á lýðræðislegum réttindum í landinu.

116. þing IPU var haldið í Nusadua í Indónesíu 28. apríl til 4. maí á síðasta ári. Það þing sóttu þingmennirnir Hjálmar Árnason, Drífa Hjartardóttir og Jón Gunnarsson auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar. 117. þing IPU var haldið í Genf 7.–10. október sl. og sóttu það þingmennirnir Ásta Möller, Ágúst Ólafur Ágústsson og Þuríður Backman auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að afar mikil áhersla er lögð á mannréttindi og jafnréttismál í starfi IPU. Í því samhengi vil ég nefna sérstaka nefnd um mannréttindi þingmanna sem gegnir veigamiklu hlutverki innan IPU og gefur út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráðið fjölmargar ályktanir um mannréttindabrot gegn þingmönnum. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin sækir heim viðkomandi lönd, ræðir við málsaðila, aflar gagna og leitar lausna í málum viðkomandi þingmanns og málum er oft fylgt eftir árum saman þar til einhver niðurstaða fæst. Einnig hefur árleg samantekt samtakanna á stöðu kvenna í þjóðþingum heims vakið mikla athygli og er iðulega vitnað til hennar í umræðum og fjölmiðlum. Sú áhersla og mikla vinna sem Alþjóðaþingmannasambandið leggur í að styðja við og styrkja hlut kvenna í stjórnmálum með ráðstefnufundum og útgáfu handbóka og skýrslna, svo og með ýmsum formlegum og óformlegum hætti, er aðdáunarverð.

Þess má geta að á þingum IPU er sérstaklega haldið til haga fjölda kvenna sem tekur þátt í störfum þingsins og jafnframt er haldin nákvæm tölfræði yfir hlutfall karla og kvenna í þjóðþingum heims. Á 117. þingi IPU voru t.d. 31,1% þingfulltrúa konur sem er betri staða en á þinginu þar á undan þar sem konur voru um 26,5%. Íslandsdeildin hélt fimm fundi á árinu og fór þar aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku á þingum IPU. Íslandsdeildin var að venju mjög virk í starfi IPU og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem koma til umræðu í nefndum og á þingum sambandsins.

Ég vil taka fram að norrænt samstarf er mjög sterkt innan IPU og norrænu landsdeildirnar eru almennt mjög virkar í starfi sambandsins. Norrænu landsdeildirnar halda samráðsfund til undirbúnings fyrir hvert IPU-þing og hafa Norðurlandafulltrúar t.d. stutt hvern annan til að ná kjöri í embættum á vegum IPU þar sem vilji hefur verið fyrir sterkt norrænt innlegg í starfinu á samnorræn gildi. Norðurlönd skiptast á að fara með stjórn norræna hópsins og voru Íslendingar í forustu árið 2007. Tveir fundir voru því haldnir hér á landi, sá fyrri í Reykjavík 20. mars og sá síðari í Stykkishólmi 5. september sl.

Á fundi IPU tekur Íslandsdeildin þátt í starfi Tólf plús hópsins svokallaða sem er landfræðilegur hópur vestrænna lýðræðisríkja. Hópurinn hittist á fundum flesta morgna meðan á þingi stendur og fer yfir helstu mál þingsins og leitast við að samræma afstöðu eins og hægt er. Á þeim fundum eru fulltrúar hópsins jafnframt valdir í embætti og störf á vegum IPU, m.a. í framkvæmdastjórn, kvennaráð samtakanna og formennsku í nefndum. Tveir þingmenn frá aðildarríkjum hópsins hafa seturétt á fundunum.

Virðulegi forseti. Nú er svo komið að ég sem tala hér sem formaður Íslandsdeildar hef verið hvött dyggilega til að bjóða mig fram til kosningar í framkvæmdastjórn IPU fyrir hönd Tólf plús hópsins. 17 manna framkvæmdastjórn hefur umsjón með rekstri IPU og eru fulltrúar hennar kosnir til fjögurra ára af ráði samtakanna og sætunum skipt á milli landfræðilegra hópa IPU. Nú er einn norrænn fulltrúi í framkvæmdastjórninni, formaður finnsku landsdeildarinnar, en kosning hans rennur út í apríl nk. Ég hef því ákveðið að bjóða fram krafta mína og fara í framboð til framkvæmdastjórnar IPU og fer kosning fram á næsta þingi sem haldið verður í Höfðaborg í Suður-Afríku í næsta mánuði.

Virðulegi forseti. Eins og áður sagði er gerð nákvæm grein fyrir því sem fram fór á fundum nefndarinnar í skýrslu þeirri sem hér er mælt fyrir og vísa ég til hennar varðandi frekari upplýsingar um störf nefndarinnar. Ég vil að lokum þakka Íslandsdeildarmönnum gott samstarf á þessum mikilvæga vettvangi. Jafnframt vil ég þakka ritara Íslandsdeildar IPU sem var framan af starfsárinu Belinda Theriault, henni vil ég þakka sérstaklega fyrir langt og farsælt samstarf á þessum vettvangi en hún hefur hætt störfum fyrir Alþingi. Einnig þakka ég Örnu Bang, starfsmanni og ritara Íslandsdeildar IPU og lofar samstarf okkar hingað til mjög góðu um framhaldið.

Að svo mæltu læt ég lokið umfjöllun minni um skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2007.