135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[16:46]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við höldum áfram umræðu frá í síðustu viku, 1. umr. um frumvarp til laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Um er að ræða frumvarp frá hæstv. utanríkisráðherra, stjórnarfrumvarp, þar sem mælt er fyrir um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands heildstætt. Það er afar jákvætt að það skuli vera tekið á þessum mikilvæga málaflokki í heildstæðu frumvarpi eins og hér er lagt til.

Þegar hefur farið fram allmikil umræða um málið og m.a. hafa komið fram sjónarmið félaga minna í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til málsins og óþarfi að rekja þau á ný. Engu að síður finnst mér mikilvægt að halda til haga nokkrum mikilvægum punktum og ég vil byrja á því að taka það fram að ég tel að markmið frumvarpsins eins og því er lýst í 1. gr. þess sé afskaplega jákvætt en þar segir, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið með alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands eru að styðja viðleitni stjórnvalda í þróunarlöndum til að útrýma fátækt og hungri, stuðla að efnahags- og félagslegri þróun, þar með töldum mannréttindum, menntun, bættu heilbrigði, jafnrétti kynjanna, sjálfbærri þróun og sjálfbærri nýtingu auðlinda.“

Ég tel að þessi markmið séu að sjálfsögðu afskaplega jákvæð og sömuleiðis það sem kemur fram í upphafi greinargerðar eða í athugasemdum við frumvarpið en þar segir, með leyfi forseta:

„Hinir nýju hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu eru mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og friðsamleg lausn deilumála.“

Ég tek að sjálfsögðu undir það sem hér er sagt. Hins vegar er hægt að spyrja sig að því hvort alltaf sé innstæða fyrir þessum fögru orðum. Til að mynda er það afstaða mín að þessir hornsteinar eins og þeim er lýst hér í athugasemdum séu í mótsögn við þá hernaðaruppbyggingu og hernaðaráherslu sem orðið hefur vart í íslenskum utanríkismálum að undanförnu, m.a. með því frumvarpi sem lagt hefur verið fram fyrir þingið og er til umfjöllunar í utanríkismálanefnd um varnarmálastofnun. Einnig má vel tengja inn í þetta umræðuna um friðargæsluna sem ekki er, a.m.k. eins og hún blasir við mér og fleirum, eingöngu á borgaralegum forsendum eins og þó er fyrirskrifað í lögunum um friðargæsluna heldur er hún einnig á hernaðarlegum forsendum. Að því leyti til teljum við mörg að framkvæmd friðargæslunnar fari í bága við lögin um íslensku friðargæsluna og að mínu viti samrýmast þessar áherslur ekki þeim fögru fyrirheitum sem lesa má í frumvarpinu um alþjóðlega þróunarsamvinnu og ætla ég að impra á nokkrum atriðum þar að lútandi.

Í 3. gr. er fjallað um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu og þar m.a. kemur fram að ráðherra eigi annað hvert ár að leggja fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um áætlun stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til fjögurra ára í senn. Þetta er að sjálfsögðu gott mál. Þarna má að sjálfsögðu velta því fyrir sér hvort eðlilegt væri að hafa þessa umræðu oftar en annað hvert ár og sérstaklega vegna þess að áætlunin á m.a. að fela í sér heildstætt yfirlit yfir það hvernig ráðherra hyggst ná settum markmiðum hennar og síðan á líka að leggja skýrslu fyrir þingið annað hvert ár um það hvernig til hefur tekist. Ég tel fulla ástæðu til að ræða þetta oftar en annað hvert ár. Þetta er mikilvægur málaflokkur og gæti tengst umræðu um utanríkismál eða t.d. umræðu um skýrslu alþjóðanefnda eins og hér var verið að ræða í dag.

Það minnir mig á það, hæstv. forseti, að þegar umræðunni um þetta mál var frestað í síðustu viku þá hélt ég að því hefði verið heitið að a.m.k. staðgengill utanríkisráðherra, sem mér skilst að sé hæstv. umhverfisráðherra, yrði viðstaddur umræðuna þegar henni yrði fram haldið. Mér þykir bagalegt ef ráðherra er það ekki.

Jafnvel þó að stefnumörkunin sé til lengri tíma og ætlast til að hún sé rædd hér annað hvert ár þá finnst mér full ástæða til að taka þróunarmálin sérstaklega til umfjöllunar árlega. Það hefur verið og var vikið að því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra geti sett reglugerðir, m.a. reglur um hlutverk samstarfsráðs sem alþjóðlega þróunarsamvinnu sem út af fyrir sig er eðlilegt, en í 11. gr. er sérstaklega víðtækt reglugerðarheimildarákvæði sem virðist vera nánast ótakmarkað. Ég tel að að það atriði þurfi að ræða miklu betur og velta fyrir sér hvort ráðuneyti eða ráðherrar eigi að hafa nánast ótakmarkaðar reglugerðarheimildir. Það er venjulega sagt að reglugerðir þurfi að eiga sér stoð í lögum og mér finnst að þegar þetta er sett inn með svona afgerandi og virðist vera með ótakmörkuðum hætti þá séu menn aðeins farnir að fara á skjön við þá grundvallarreglu.

Varðandi 6. gr., um störf í þágu friðar, þá tel ég að sú grein sé óþörf í frumvarpinu. Ég tel að það eigi ekki að blanda saman því starfi sem fer fram á vegum friðargæslunnar, friðargæsluverkefnunum annars vegar og þróunarsamvinnunni hins vegar. Ég held að það sé engum greiði gerður með því, alls ekki þróunarsamvinnunni sjálfri, hvorki þeim sem starfa á hennar vegum né þeim sem njóta hennar, og ekki heldur íslenskum stjórnvöldum. Ég held að það sé ekki til góðs að blanda saman annars vegar þróunarsamvinnu, sem er meira og minna óumdeilt verkefni og mikilvægt á alþjóðavísu og hins vegar friðargæsluverkefnum, sérstaklega þegar þau eru hernaðarlegs eðlis því að slík verkefni hljóta að verða afar umdeild í samfélaginu, ekki bara hér á landi heldur líka í alþjóðasamfélaginu.

Í 7. gr er fjallað um Þróunarsamvinnustofnun Íslands og ég fagna því sérstaklega að Þróunarsamvinnustofnunin skuli með þessu frumvarpi vera sjálfstæð stofnun eins og hún hefur verið vegna þess að það hafa verið uppi heilmiklar umræður um það á fyrri stigum að leggja hana niður og leggja hana algerlega undir utanríkisráðuneytið. Ég tel að sú leið sem hér er farin, að hún sé sjálfstæð stofnun sem sinnir þessum verkefnum sérstaklega, sé góð og mikilvæg. Hins vegar er hér jafnframt lagt til að stjórn stofnunarinnar sé lögð niður og það tel ég spor aftur á bak. Ég tel að það styrki stofnun eins og Þróunarsamvinnustofnun að hafa sérstaka stjórn sem fjallar um þau mál sem þar er verið að glíma við. Mér er kunnugt um það að stjórnin hefur fundað að jafnaði mánaðarlega. Hér er gert ráð fyrir sérstöku samstarfsráði um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem er út af fyrir sig gott mál líka en það er skipað með allt öðrum hætti og það er gert ráð fyrir að það fundi jafnan tvisvar á ári þannig að það mun aldrei koma í staðinn fyrir stjórn Þróunarsamvinnustofnunar. Ég tel því að samstarfsráð eins og það hefur verið lagt upp hér sé jákvætt í sjálfu sér og gott mál en það kemur að mínu viti ekki í staðinn fyrir stjórn Þróunarsamvinnustofnunar sem ég sakna þar af leiðandi í þessu frumvarpi.

Ég ætla líka að vekja athygli á því að í 7. gr. er sagt að ráðherra skipi framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar. Þegar hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir málinu var í umræðunni um það spurt um ástæðu fyrir því að starfið væri ekki auglýst, það væri sérkennilegt að ekki væri gert ráð fyrir því. Hæstv. utanríkisráðherra svaraði því þá til í andsvörum að það væri ekki tekið fram í lögunum eða frumvarpinu en það væri sjálfsagt að það væri gert en það lyti sömu lögmálum og öll önnur störf á vegum ríkisins þannig að starfið yrði að sjálfsögðu auglýst.

Hins vegar vil ég líka vekja athygli á því að það eru engin tímamörk. Það hefur færst í vöxt á undanförnum árum að nánast allir opinberir forstöðumenn og forstjórar ríkisstofnana eru ráðnir eða skipaðir til tiltekins tíma í senn, oft til fimm ára. Það hefur verið talið jákvætt að gera það en hér er ekki lagt til að svo sé og ég hlýt að velta því fyrir mér og spyrja: Hvernig stendur á því að ekki er gert ráð fyrir því með framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar að hann sé þá skipaður t.d. til fimm ára í senn eins og algengt er með opinbera forstöðumenn?

Talað er um að það sé verið að styrkja aðkomu Alþingis að umfjöllun um þróunarsamvinnumál og ég fagna því ef svo verður í reynd. Ég tel að umræða um þau mál annað hvert ár sé engin sérstök trygging fyrir því að Alþingi hafi meiri aðkomu að málinu og þó að hér sé talað um að gera utanríkismálanefnd grein fyrir þróunarsamvinnumálum þá er heldur engin trygging fyrir því í sjálfu sér að verið sé að auka aðkomu Alþingis að þessum málum. Það fer auðvitað allt eftir því hvernig þetta reynist síðan í framkvæmd, hvort hér verður um raunverulega stefnumótunarumræðu á vegum þingsins, á vegum utanríkismálanefndar hér í þinginu að ræða eða hvort þetta er bara í einhvers konar tilkynningarformi af hálfu framkvæmdarvaldsins, að það komi reglulega inn á fund nefndar og tilkynni nefndinni hvað framkvæmdarvaldið hefur verið að sýsla með í þessum málaflokki. Hér mun því reyna mjög á það hvernig menn hugsa sér þessa hluti í framkvæmd og það liggur ekki algerlega fyrir eins og sakir standa og alls ekki í þessu frumvarpi.

Það eru nokkrar spurningar sem ég hefði viljað bera upp við ráðherra og enn á ný ítreka ég að ég sakna þess að það skuli enginn handhafi framkvæmdarvaldsins vera á staðnum.

(Forseti (MS): Forseti biður hv. ræðumann afsökunar á truflun en vill upplýsa að staðgengill hæstv. utanríkisráðherra mun vera rétt ókominn í hús.)

Ég þakka fyrir það. Það sem ég hefði viljað taka upp sérstaklega er að í greinargerð með frumvarpinu, m.a. í 7. gr. er fjallað um sérstakan stýrihóp innan utanríkisráðuneytisins og þar er gert ráð fyrir því að hann sé undir stjórn ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu en ásamt honum sitja í stýrihópnum, sviðsstjóri á þróunarsamvinnusviði og skrifstofustjórar skrifstofu þróunarmála og íslensku friðargæslunnar, auk framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar. Þarna er friðargæslunni aftur blandað inn sem ég tel afar óskynsamlegt og óheppilegt gagnvart þróunaraðstoðinni og þróunarsamvinnunni sérstaklega og mér er ekki ljóst hvaða hlutverki þessi stýrihópur á að gegna. Það virðist vera að hann eigi að koma í staðinn fyrir stjórn Þróunarsamvinnustofnunar en í greinargerðinni segir m.a., með leyfi forseta:

„Stýrihópnum er ætlað það hlutverk að sinna innra aðhaldi og framkvæmd innra eftirlits með faglegri stefnumótun, daglegri framkvæmd og rekstri.“

Ég hlýt að gera við það verulega athugasemd að það geti staðist að það sé einhver innanhússhópur ábyrgðarmanna, eins og ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í ráðuneytinu ásamt forstjóra stofnunarinnar sjálfrar, sem sitji í einhverjum innri eftirlitshópi um starfsemi stofnunarinnar sem síðan heyrir undir utanríkisráðuneytið. Þetta tel ég að sé eitthvert bix í stjórnsýslu sem geti varla gengið upp, hér er verið að búa til eitthvert eftirlitsbatterí sem á að hafa eftirlit með sjálfu sér og sínu starfsfólki. Þetta finnst mér alls ekki ganga og þetta undirstrikar að mínu viti einmitt þörfina á því að það sé sérstök stjórn fyrir Þróunarsamvinnustofnun sem að sjálfsögðu ætti að hafa þetta hlutverk með höndum meðal annars.

Það eru ýmis atriði, virðulegi forseti, sem mér finnst full ástæða til að ræða og skoða frekar en ég tek það skýrt fram að eins og frumvarpið er lagt upp, með þeim markmiðum sem þar koma fram, er afskaplega jákvætt og þingflokkur vinstri grænna styður þá meginhugsun sem hér kemur fram. Við styðjum þá leið sem farin er að tryggja að Þróunarsamvinnustofnun verði áfram sjálfstæð stofnun en vissulega eru nokkur atriði sem ég og fleiri úr þingflokki mínum höfum þegar tæpt á sem við hefðum viljað áskilja okkur rétt til að láta skoða frekar eða jafnvel koma með breytingartillögur við.