135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

kjarabætur til aldraðra og öryrkja.

[13:33]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Eftir að gengið var frá kjarasamningum í febrúar og hæstv. ríkisstjórn lagði fram yfirlýsingu um ýmsar aðgerðir af sinni hálfu þar að lútandi hef ég margsinnis verið spurður að því hvaða áhrif samningarnir og yfirlýsing hæstv. ríkisstjórnar hafi á hag eldri borgara og öryrkja. Ég segi ekki að mér hafi vafist tunga um tönn enda ýmislegt sem samið er um sem hefur þýðingu fyrir landsmenn alla, óháð stétt eða aldri. Hins vegar er eðlilegt að spurt sé um aldraða og öryrkja sérstaklega þar sem fulltrúar þeirra sitja ekki við samningaborðið og eru ekki aðilar að samningum um kaup og kjör á hinum almenna vinnumarkaði. Í þessum samningum var lögð áhersla á að bæta kjör þeirra lægst settu. Öllum er ljóst að þúsundir aldraðra og öryrkja búa við rýr kjör og eru upp á almannatryggingarnar komnar. Af þeim sökum er spurt: Að hvaða leyti var hugsað til þessara þjóðfélagshópa þegar gengið var frá kjarasamningum?

Mér finnst nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra svari þessari spurningu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og útskýri fyrir mér og þingheimi og hagsmunaaðilum hvaða kjarabót finnst í áðurnefndum samningum og yfirlýsingum sem bætir hag lífeyrisþega. Meðan lífeyrisþegar eiga ekki aðild að vinnumarkaði nema sem einstaklingar og sitja ekki við samningaborð um kaup og kjör verða þeir að treysta á að ríkisvaldið og hæstv. ríkisstjórn gæti hagsmuna þeirra. Hæstv. forsætisráðherra er í rauninni umboðsmaður, réttargæslumaður, þessa fólks og því er kallað eftir viðbrögðum og skýringum hans.