135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

kjarabætur til aldraðra og öryrkja.

[13:35]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þeir sem njóta bóta úr almannatryggingakerfinu sitja ekki við samningaborð úti á hinum almenna vinnumarkaði. En um réttindi þeirra gilda hins vegar ákveðin lög og það var áréttað í þessum samningum að um kjarabætur til þeirra í tilefni af kjarasamningunum yrði farið í samræmi við ákvæði laga. Reyndar á ekki að þurfa að taka það fram en það stendur eigi að síður í yfirlýsingunni. Þau lagaákvæði eru þannig að bætur hækka eftir því sem laun hækka að meðaltali. Ef verðlag hækkar meira en laun ber að hækka bæturnar sem svarar verðlagi þannig að segja má að þessar bætur séu verðtryggðar eins og við þekkjum.

Fjármálaráðuneytið og nú félagsmálaráðuneytið, eftir að þessi lagabálkur fluttist á milli ráðuneyta, hafa verið að vinna í því að útfæra þetta mál eins og alltaf er gert. Ég veit ekki betur en það gangi ágætlega fyrir sig. Hins vegar er það þannig í sambandi við samninga að ríkisstjórnir hafa á undanförnum árum oftar en einu sinni gert sérstaka samninga við samtök eldri borgara um að bæta kjör þeirra. Í desember var tekin sérstök ákvörðun, sem var kynnt í þessum sal og kemur til framkvæmda 1. apríl, í framhaldi af löggjöf sem nú er til meðferðar í þinginu, og svo síðar á þessu ári, um að stórbæta kjör ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega. Sams konar samkomulag var gert sumarið 2006 og er líka smám saman að koma til framkvæmda.

Þetta vildi ég undirstrika, virðulegi forseti.