135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

kjarabætur til aldraðra og öryrkja.

[13:37]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin. Ég vil taka fram að í fyrirspurn minni felst enginn áfellisdómur. Ég kannast vel við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til að því er varðar hagsmuni eldri borgara og geri ekki lítið úr því. Ég tel engu að síður að það hafi fyrst og fremst verið leiðréttingar á göllum kerfisins eins og þeir lágu fyrir þá og gera enn að mörgu leyti þannig að kjarasamningar og hagsmunir eldri borgara koma náttúrlega aftur á dagskrá þegar verið er að rétta hlut þeirra sem eru með lægstu kjörin — eldri borgarar og öryrkjar eru því miður allt of margir í þeim hópi.

Ég legg áherslu á það, herra forseti, að gripið verði til aðgerða í samræmi við yfirlýsinguna, sem hæstv. forsætisráðherra vitnaði til, um að ekki aðeins verði farið að lögum heldur líka að bætur til þessara hópa verði í samræmi við verðlagsbreytingar og gott betur. Hér er mikið verk að vinna.