135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

lífrænn landbúnaður.

[13:41]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að stuðningur okkar við lífrænan landbúnað hefur verið hlutfallslega lítill fram undir þetta og það hefur helgast af því að eftirspurn eftir þessum vörum hefur verið tiltölulega lítil. Þróun í þessum efnum hlýtur að ráðast af eftirspurn á markaðnum því að bændur fara varla að framleiða lífrænar vörur sem ekki er eftirspurn eftir.

Við sjáum hins vegar að þessi mál hafa verið að breytast nokkuð upp á síðkastið. Það er alveg rétt, eins og ég nefndi í ræðu fyrir fáeinum vikum, að ekki er ólíklegt að þessi hækkun á áburðarverði muni t.d. frekar stuðla að því að vaxandi áhugi verði á þessu til að reyna að draga úr kostnaði.

Nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á búnaðarlagasamningi og þá verður stefnan mörkuð. Þar kemur fram með hvaða hætti menn skipta stuðningnum niður á einstaka þætti sem rúmast innan búnaðarlagasamningsins. Ég tel einsýnt að við munum horfa meira á stuðning við lífræna ræktun í ljósi þess að eftirspurnin er að aukast. Áhuginn er meiri hjá neytendum og svo er það þróunin sem orðið hefur varðandi áburðarverðið.

Í þessu sambandi vil ég þó segja, og vekja athygli á því, að mjög er kallað eftir því að reynt sé að koma í veg fyrir að áburðarverðið skelli með ofurþunga á bændum og síðan neytendum. Það eru auðvitað himinhrópandi hagsmunir íslenskra bænda eins og málin eru í dag að okkur takist það með einhverjum hætti. En það mun líka vinna gegn markmiðunum um lífrænan landbúnað, það sjá allir. Þarna er einhver lína sem við verðum að reyna að feta en í ljósi þess að markaðsaðstæður eru nú hagstæðari fyrir lífrænan landbúnað en verið hefur hér innan lands tel ég einsýnt að við reynum að leggja meiri áherslu á þennan þátt málsins við endurskoðun búnaðarlagasamningsins.