135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

lífrænn landbúnaður.

[13:43]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé ekki rétt að ekki hafi verið eftirspurn eftir lífrænt vottuðum vörum, það sýnir markaðurinn og aukinn innflutningur. Ég tel að áhugaleysið sé miklu frekar hjá Bændasamtökunum sem ekki hafa beitt sér fyrir þessari tegund landbúnaðar heldur en hjá neytendum. Ég tel því mjög brýnt að stefnan verði tekin ekki síður hjá landbúnaðarráðherra og ríkisstjórn þar sem Bændasamtökin hafa fram til þessa sýnt það lítinn áhuga á að efla þessa tegund landbúnaðar.

Ég vil nota tækifærið, hæstv. forseti, til að minna á tillögu til þingsályktunar um aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað sem dreift hefur verið á þinginu. Þetta er í sjötta skipti sem þingsályktunartillaga í þessa veru er lögð fram og hefur hvorki fengið afgreiðslu hér á þingi né undirtektir hjá ríkisstjórnum eða hjá Bændasamtökunum sem hafa látið þetta sem vind um eyru þjóta. Neyðin kennir naktri konu að spinna og ég ætla að vona að Bændasamtökin fari að taka upp þráðinn.